fim 12. apríl 2018 16:22
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Chiellini með stórar ásakanir - „Bayern í fyrra, Juve núna"
Spurði hvað þeir hefðu borgað dómaranum
Þjarmað að dómaranum. Chiellini segir dómara dæma með Real Madrid.
Þjarmað að dómaranum. Chiellini segir dómara dæma með Real Madrid.
Mynd: Getty Images
Ronaldo skoraði sigurmark Real úr umdeildri vítaspyrnu.
Ronaldo skoraði sigurmark Real úr umdeildri vítaspyrnu.
Mynd: Getty Images
Giorgio Chiellini, varnarmaður Juventus, var eins og aðrir liðsfélagar sínir ósáttir eftir að hafa fallið úr leik í 8-liða úrslitum Meistaradeildinnar gegn Real Madrid í gær.

Juventus tapaði fyrri leiknum á heimavelli 3-0 en sýndi karakter í gærkvöldi og kom til baka. Eftir tvö skallamörk frá Mario Mandzukic í fyrri hálfleiknum þá skoraði miðjumaðurinn Blaise Matuidi um miðjan seinni hálfleikinn og staðan 3-0 fyrir Juventus.

Hreint út sagt ótrúlegt en í uppbótartímanum varð allt vitlaust. Enski dómarinn Michael Oliver dæmdi þá vítaspyrnu. Mehdi Benatia, varnarmaður Juventus, var á bakinu á varamanninum Lucas Vazquez sem féll til jarðar. Oliver var fljótur að benda á punktinn en Gianluigi Buffon, markvörður og fyrirliði Juventus, missti stjórn á skapi sínu og fékk beint rautt spjald.

Vítaspyrnudómurinn var umdeildur og hefur hann verið mikið ræddur en Chiellini segir að það hafi ekki komið sér á óvart að dómarinn hafi dæmt. Hann bendir á það að Bayern München hafi líka fallið úr leik í fyrra gegn Real Madrid á svipaðan máta.

„Þetta á ekki að koma á óvart. Bayern lenti í þessu í fyrra og nú var komið að Juve," sagði Chiellini.

Í fyrra féll Bayern úr leik gegn Real Madrid í undanúrslitum eftir framlengdan seinni leik þar sem Real skoraði rangstöðumark í uppbótartíma, auk þess sem miðjumaður Bayern, Arturo Vidal, fékk ranglega að líta rauða spjaldið.

Chiellini lét óánægju sína í ljós á vellinum í gær en á myndbandsupptökum virðist hann spyrja leikmenn Real hvað þeir hafi borgað dómaranum.

Sjá einnig:
Buffon: Dómarinn með ruslatunnu í stað hjarta



Athugasemdir
banner
banner