Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 12. júní 2018 10:49
Elvar Geir Magnússon
Fólkið í blokkinni á að halda sig frá gluggum og svölum meðan Ísland æfir
Icelandair
Stærsta blokkin við æfingasvæðið.
Stærsta blokkin við æfingasvæðið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rússarnir eru ekkert að leika sér þegar kemur að öryggisgæslunni við æfingasvæði Íslands í Gelendzhik. Allt í kringum völlinn eru vígalegir lögreglumenn og til að komast inn á æfingasvæðið þarf að vera með sérstakan passa frá FIFA og fara í gegnum sérstaka öryggisleit.

Reynt er að gera allt sem hægt er til að hindra sýn inn á svæðið þegar íslenska liðið er í taktískum æfingum fyrir leikinn gegn Argentínu. Æfingarnar eru aðeins opnar fyrir fjölmiðla fyrstu fimmtán mínúturnar en á þeim tíma gerist fátt merkilegra en að leikmenn eru í upphitun og skokka í hringi.

Við hlið æfingavallarins eru blokkir sem eru það háar að hægt er að sjá inn á æfingasvæðið. Lögreglan gaf öllum íbúum blokkarinnar skipanir um að halda sig frá gluggum og svölum á meðan æfingarnar standa yfir og eru myndatökur bannaðar.

Jóhannes Ólafsson, einn reyndasti meðlimur landsliðsnefndar KSÍ og yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, sagði að það væru ekki allir íbúarnir að fara eftir skipunum því fólk með myndavél hefði sést á æfingu í gær. Enginn grunur er þó um að þarna hafi verið njósnarar frá argentínska landsliðinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner