Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   sun 12. júní 2022 09:30
Brynjar Ingi Erluson
Matip óskaði eftir því að snúa aftur í landsliðið - Eto'o vill ekki sjá hann
Joel Matip
Joel Matip
Mynd: EPA
Samuel Eto'o er forseti kamerúnska knattspyrnusambandsins í dag
Samuel Eto'o er forseti kamerúnska knattspyrnusambandsins í dag
Mynd: Getty Images
Samuel Eto'o, forseti kamerúnska knattspyrnusambandsins, hefur hafnað beiðni Joel Matip um að snúa aftur í landsliðið en þetta kemur fram í kamerúnsku fjölmiðlunum í dag.

Matip spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Kamerún árið 2010 þegar hann var 18 ára gamall en hætti fimm árum síðar þar sem hann var óánægður með störf knattspyrnusambandsins og hafði þá slæma reynslu af þjálfaraliðinu.

Það kom ekki í ljós fyrr en tveimur árum síðar að hann væri hættur er hann var valinn í landsliðið fyrir Afríkukeppnina. Matip neitaði að taka þátt og greindi frá því að hann væri þegar búinn að leggja landsliðsskóna á hilluna.

Matip hafði ekki sent kamerúnska knattspyrnusambandinu skriflegt bréf um að hann væri hættur og fór því málið inn á borð FIFA. Á meðan það var í ferli mátti Matip ekki spila með Liverpool og missti af tveimur leikjum gegn Manchester United og Plymouth Argyle.

Kamerúnskir fjölmiðlar segja nú frá því að Matip óskað eftir því að spila aftur fyrir Kamerún og taka þátt á HM í Katar en Eto'o hefur engan áhuga á að fá hann aftur og hafnaði beiðni leikmannsins.

„Þetta er landslið og líðum það ekki þegar fólk heldur að það sé svakalega sérstakt og vill bara vera með okkur þegar allt er í blóma," sagði Eto'o.

„Við unnum einir fyrir þessu og berum mikla virðingu fyrir þeim leikmönnum sem eru hér á bæði slæmu og góðu stundunum. Ég var sjálfur að spila með bestu liðum Evrópu en það var aldrei fyrir neðan mína virðingu að spila fyrir landsliðið."

„Ég held að tími Matip í landsliðinu sé liðinn og hann verður að vera áfram hjá Liverpool. Þeir sem byrjuðu þessa vegferð munu klára hana í Katar. Það skiptir ekki máli hverjir þeir eru en þeir fara til Katar og njóta góðs af því að hafa komist í gegnum undankeppnina og tryggt farseðilinn á HM,"
sagði hann ennfremur.
Athugasemdir
banner
banner