fös 12. júlí 2019 10:45
Arnar Daði Arnarsson
Þrefaldur íbúafjöldi Grenivíkur á leiknum í gær
Leikmenn liðanna ganga inná völlinn fyrir leik.
Leikmenn liðanna ganga inná völlinn fyrir leik.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Áhorfendur á leiknum í gær.
Áhorfendur á leiknum í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
917 áhorfendur voru á leik Magna og Þórs í 11. umferð Inkasso-deildar karla í gærkvöldi sem fram fór á Grenivíkurvelli.

Það er nú varla frásögu færandi nema fyrir þær sakir að í Grýtubakkahreppi eru íbúar alls 374 og þar af tæplega 300 sem búa í Grenivík.

Hópur stuðningsmanna Þórs sigldi á hvalaskoðunarbát þvert yfir Eyjafjörð, frá Hauganesi til Grenivíkur. Uppselt var í þá ferð en auk þess komu fjölmargir Akureyringar akandi til Grenivíkur.

Iðulega er vel mætt á leiki Magna á heimavelli þá sérstaklega ef tekið er mið af íbúafjölda bæjarins. Það er þó sjaldan jafn vel mætt á leiki á Grenivíkurvelli eins og þegar Þór kemur í heimsókn.

Í fyrra voru 804 áhorfendur á leiknum þegar liðin mættust í Inkasso-deildinni en nú var bætt um betur og alls mættu 917 áhorfendur á leikinn í gær.

Hægt er að sjá myndir úr bátsferðinni hér.
Athugasemdir
banner
banner