Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 12. september 2018 09:00
Magnús Már Einarsson
Donni: Geri kröfu á Akureyringa og aðra að mæta
Þór/KA - Wolfsburg í dag klukkan 16:30
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Í fótbolta er alltaf möguleiki á að ná ásættanlegum úrslitum. Wolfsburg er eitt besta félagslið heims og við gerum okkur grein fyrir því að þær eru ótrúlega sterkt lið. Við munum gera okkar besta og sjá hvað gerist," segir Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Þórs/KA um fyrri leik liðsins gegn Wolfsburg í 32-liða úrslitum Meistaradeildar kvenna.

Wolfsburg fór í úrslit í Meistaradeildinni í fyrra en þýsku meistararnir mæta í heimsókn á Þórsvöll klukkan 16:30 í dag. Meðal leikmanna Wolfsburg er íslenski landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir.

„Við höfum skoðað nokkra leiki með þeim og farið vel yfir þeirra upplegg bæði í opnum leik og föstum leikatriðum."

„Wolfsburg er ótrúlega vel mannað lið. Það eru landsliðsmenn í öllum stöðum úr frábærum landsliðum svo það verður mjög erfitt að stöðva þær í sínum aðgerðum."

„Við þurfum að spila okkar allra besta varnarleik bæði í opnum leik en ekki síður i föstum leikatriðum þar sem þær eru gífurlega sterkar. Síðan þurfum við að nýta okkur ákveðin svæði sóknarlega og reyna að halda aðeins í boltann þegar tækifæri er á. Auk þess að nýta föstu leikatriðin okkar og reyna að stýra hraðanum í leiknum."


Þór/KA tapaði 3-0 gegn Breiðabliki á laugardaginn og vonir liðsins um að verja Íslandsmeistaratitilinn fóru nánast út um gluggann þá. Donni segir að andinn í hópnum sé góður fyrir leikinn í kvöld.

„Stelpurnar hafa alltaf verið mjög spenntar fyrir þessu verkefni svo það þurfti ekkert sérstakar ráðstafanir til að lyfta upp andanum eftir hinn leikinn."

Donni vonast eftir góðum stuðningi í stúkunni í dag gegn ógnarsterku liði Wolfsburg.

„Við reiknum með mjög góðri mætingu á leikinn, ég hreinlega geri kröfu á Akureyringa og aðra að mæta á þennan leik. Þeir gerast ekki stærri leikirnir svo ég trúi ekki öðru en að við hreinlega fyllum stúkuna," sagði Donni að lokum.
Athugasemdir
banner
banner