mið 12. september 2018 14:40
Magnús Már Einarsson
Óli Stefán hefur fengið fyrirspurnir frá erlendum félögum
Óli Stefán Flóventsson.
Óli Stefán Flóventsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindvíkinga, hefur fengið nokkrar fyrirspurnir eftir að greint var frá því í síðustu viku að hann muni hætta sem þjálfari liðsins eftir tímabilið. Félög í Noregi og Færeyjum hafa meðal annars heyrt í Óla Stefáni og kannað stöðuna hjá honum. Hann stefnir þó ekki út í augnablikinu.

„Ég er pínulítið hissa á því en ég hef fengið þrjú áhugaverð verkefni þar (erlendis). Ég held að þetta sé samt ekki rétti tímapunkturinn í það. Ég er að fara að mennta mig miera. Ég er að fara í UEFA pro í Noregi í október. Næstu skref eru að ná í þá gráðu til að taka næstu skref í þessum bransa og metnaðurinn liggur þar vissulega," sagði Óli Stefán í viðtali í Miðjunni á Fótbolta.net í dag.

Óli Stefán stefnir á að halda áfram að starfa á Íslandi en hann hefur ekki farið í alvöru viðræður við félög ennþá.

„Ég hef alltaf stoppað það, þar sem stundum eru þjálfarar í starfi þaðan sem er verið að hringja. Ég er á fullu í mínu starfi og þarf að einbeita mér að því. Kannski er ég barnalegur í þessari nálgun og þarf að skoða þetta betur en það hafa komið einhver símtöl. Það eru einhverjir möguleikar og ég þarf að vanda næsta skref," sagði Óli sem er ekki vanur því að standa á krossgötum eins og núna.

„Ég er búinn að vera edrú í 9 ár og alltaf þurft að hafa ákveðna vissu í mínu lífi. Óöryggi er eitthvað sem er vont fyrir mig. Þegar ég tek þess ákvörðun að segja upp og það kemur út fannst mér svolítið eins og ég væri búinn að binda fyrir augun og væri að fara að labba plankann og vissi ekkert hvað væri framundan."

„Ég einbeiti mér rosalega að því að klára þetta tímabil með Grindavík. Ef það koma upp möguleikar þá skoða ég þá, í hvaða formi sem það verður. Hvort sem það verður uppbyggingarstarf, starf í efri deildum, landsliðsverkefni, eitthvað úti eða eitthvað þá mun ég skoða það því þegar öllu er á botninn hvolft þá er ég atvinnulaus eftir þrjár vikur."

Smelltu hér til að hlusta á viðtalið við Óla Stefán í Miðjunni
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner