mán 12. nóvember 2018 14:00
Magnús Már Einarsson
Haukur Heiðar endar á titli hjá AIK - Á leið í Pepsi-deildina?
Haukur var í landsliðshópi Íslands á EM í Frakklandi.
Haukur var í landsliðshópi Íslands á EM í Frakklandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er auðvitað gaman að enda á titli eftir fjögur ár hérna. Sem keppnismaður vill maður alltaf spila en þegar maður verður aðeins eldri og fer að slaka á þá á maður kannski að njóta þess ennþá meira," sagði varnarmaðurinn Haukur Heiðar Hauksson við Fótbolta.net í dag.

Haukur Heiðar varð í gær sænskur meistari með AIK en ljóst er að hann fer frá félaginu þegar samningur hans rennur út um áramótin.

„Það er alveg 100% að ég fari frá AIK. Ég er búinn að vera hérna í fjögur ár og það er kominn tími á að breyta til, bæði fyrir mig og félagið líka."

Meiðsli hafa sett stórt strik í reikninginn hjá Hauki undanfarin tvö ár en hann spilaði fjóra leiki í sænsku úrvalsdeildinni á nýliðnu tímabili.

„Ég er mjög ánægður með þessi fjögur ár fyrir utan hvað ég hef verið mikið meiddur undanfarin tvö ár. Það er alltaf leiðinlegt að vera meiddur og þetta er búið að vera upp og niður undanfarin tvö ár."

Hinn 27 ára gamli Haukur er uppalinn hjá KA en hann lék einnig með KR í þrjú ár áður en hann fór til AIK. Haukur hefur verið orðaður við sín gömlu félög á Íslandi og hann gæti verið á heimleið.

„Það er alveg eins líklegt að ég að komi heim og að ég haldi áfram úti. Ég ætla að skoða allt sem er í boði," sagði Haukur við Fótbolta.net í dag.
Athugasemdir
banner
banner
banner