mán 12. nóvember 2018 18:34
Elvar Geir Magnússon
Brussel
Helmingur hópsins æfði án Hamren
Icelandair
Frá landsliðsæfingu í Brussel í dag.
Frá landsliðsæfingu í Brussel í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Leikmenn íslenska landsliðsins hittust í Brussel í Belgíu í dag þar sem undirbúningur fyrir leikinn gegn heimamönnum í Þjóðadeildinni fór á fulla ferð.

Ástand leikmanna í hópnum er misjafnt en sumir voru að spila í gær.

Tólf leikmenn, helmingur hópsins, æfði á litlum velli við hlið þjóðarleikvangsins seinni partinn í dag. Þar af voru markverðirnir þrír.

Birkir Bjarnason gat tekið þátt í æfingunni en hann er að koma til baka eftir nárameiðsli. Viðtal við Birki kemur inn í dag.

Það voru Freyr Alexandersson og styrktarþjálfarinn Sebastian Boxleitner sem sáu um æfinguna í dag ásamt markvarðaþjálfaranum Lars Eriksson. Erik Hamren mætti ekki.

Margir mikilvægir leikmenn eru fjarri góðu gamni í leiknum á fimmtudaginn. Það hefur kvarnast úr hópnum sem Erik Hamren opinberaði síðasta föstudag en Jóhann Berg Guðmundsson og Gylfi Þór Sigurðsson meiddust og ferðuðust ekki til Belgíu.

Birkir Már Sævarsson æfði ekki í dag en hann flaug frá Íslandi til Belgíu í morgun. Hann er í kapphaupi við tímann til að vera klár í slaginn á fimmtudag.

Andri Rúnar Bjarnason var kallaður inn í hópinn en viðtal við hann kemur inn á Fótbolta.net á eftir.

Smelltu hér til að sjá hópinn
Athugasemdir
banner
banner
banner