Lewis-Skelly á blaði fjögurra félaga - Mörg stórlið vilja ungstirni Hertha Berlin - Casemiro gæti fengið nýjan samning - Toney til Englands?
   mið 12. nóvember 2025 16:03
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Kynntist stelpu og settist að á Ísafirði - „Núna þarf ég að sigra hann"
Lengjudeildin
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Lék í um áratug með Vestra.
Lék í um áratug með Vestra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ræddi við Gunnar Heiðar.
Ræddi við Gunnar Heiðar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Og Jón Þór.
Og Jón Þór.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vladan og Ferran verða áfram en óvíst með Vigni Snæ.
Vladan og Ferran verða áfram en óvíst með Vigni Snæ.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
'Mér fannst alltaf gaman að spila með liðinu, í liðinu voru strákar á svipuðum aldri með svipuð áhugamál.'
'Mér fannst alltaf gaman að spila með liðinu, í liðinu voru strákar á svipuðum aldri með svipuð áhugamál.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elmar Atli tekur slaginn áfram.
Elmar Atli tekur slaginn áfram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Og Pétur Bjarnason líka.
Og Pétur Bjarnason líka.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Daniel Badu var á laugardag kynntur sem nýr þjálfari Vestra. Hann tekur við liði bikarmeistarana af Jóni Þór Haukssyni sem stýrði liðinu til bráðabirgða í lok tímabils eftir að Davíð Smári Lamude var látinn fara.

Badu þekkir vel til á Ísafirði, hann er 38 ára Englendingur sem kom fyrst vestur árið 2012 og lék með liðinu í tíu tímabil áður en skórnir fóru á hilluna. Fótbolti.net ræddi við Daniel um nýja starfið.

„Tilfinningin er mjög góð, það er auðvitað mikil ábyrgð fólgin í því að taka þetta starf að sér og mikill heiður. Vestri hefur síðustu ár tekið stór skref og þetta er mikið tækifæri," segir Badu sem býr á Ísafirði og stýrir íþróttaskóla Ísafjarðarbæjar meðfram þjálfuninni.

Tilbúinn í áskorunina
Þegar ljóst varð að jón Þór yrði ekki áfram, hugsaðir þú að þú gætir orðið næsti þjálfari Vestra?

„Í hreinskilni þá ræddi ég við Jón Þór á lokahófinu. Við sátum saman og ég nefndi við hann að það yrði frábært ef hann yrði áfram og ef hann myndi gera það þá væri ég mjög til í að vinna með honum. Hann spurði mig bara hreint út af hverju ég vildi ekki bara taka við liðinu. Ég hafði ekki hugsað út í möguleikann að vera aðalþjálfari, en mig langaði að hjálpa liðinu og hefði alltaf skoðað möguleikann. Ég vildi bara að Vestri myndi ráða eins góðan þjálfara og mögulegt væri."

„Tilfinningin er að ég sé tilbúinn í þessa áskorun, en ég myndi ekki orða það þannig að ég hafi verið að bíða eftir kallinu."


Yrðu vonbrigði að ná ekki topp fimm
Hvernig er að taka við bikarmeisturum síðasta tímabils?

„Þetta er mikill heiður og ég er heppinn að vera í þessari stöðu. Ég gerði ekkert til að verðskulda það að vera orðinn þjálfari liðs sem verður í Evrópu á næsta tímabili, það er þökk sé vinnu þeirra sem voru hér á undan og liðsins. Við megum ekki eyða þessari áskorun að spila í Evrópu í ekki neitt, við verðum að mæta tilbúnir og tilbúnir að njóta þess að vera á þessu sviði. Félagið hefur aldrei verið í þessari stöðu áður, við verðum að taka þessu mjög alvarlega, gera okkar allra besta og sjá hvað við getum gert. Enginn bjóst við því að liðið myndi vinna bikarinn og af hverju ættum við ekki að geta komið öllum á óvart aftur? Þannig nálgast ég þetta allavega."

Það er auðvitað langt í mót, en hvernig sér Badu næsta sumar?

„Lengjudeildin er mjög erfið deild. Það eru örugglega allavega tíu lið sem stefna á topp fimm í deildinni. Við viljum vera með lið sem getur farið í alla leiki til þess að vinna. Ef við erum nógu góðir, reynum að vera betra liðið í öllum leikjum, þá ættum við að vera í góðri stöðu um haustið. Það yrðu vonbrigði að ná ekki topp fimm. Ég vil ekki setja eitthvað hámark á hvað við getum gert, stefnan er að verða samkeppnishæfir í öllum leikjum."

Aðstoðarþjálfari í tvö tímabil og þjálfari Harðar 2025
Badu lagði skóna á hilluna eftir tímabilið 2022. Hann kom inn í þjálfarateymi Davíðs Smára, var aðstoðarmaður hans þegar Vestri fór upp í Bestu deildina 2023 og áfram 2024.

„2024 var erfitt ár fyrir mig persónulega. Ég vildi breyta til, tók við Herði þar sem ég gat áfram verið heima. Það er mikið um ferðalög, mikil vinna, í kringum Vestra á undirbúningstímabilinu en það er minna um það hjá Herði. Það var gott fyrir mig að upplifa það að vera aðalþjálfari. Núna í haust fannst mér ég vera tilbúinn í nýja áskorun, en hefði líka verið sáttur við það að vera áfram hjá Herði, ég naut mín í því hlutverki."

Kynntist stelpu og hefur ekki viljað fara
Badu kom fyrst til Íslands árið 2010, fór á reynslu hjá Njarðvík en hélt svo til Grenivíkur þar sem hann spilaði með Magna. Hann hélt næst vestur og spilaði með BÍ/Bolungarvík áður en hann fór svo aftur í eitt ár til Grenivíkur. Fyrir rúmum tíu árum síðan sneri hann svo aftur vestur og hefur verið þar síðan.

„Þetta hljómar kannski klisjukennt en það var bara þannig að ég kynntist stelpu. Þegar ég kom fyrst þá var ekki planið að ílengjast á Ísafirði, en eitt ár varð að tveimur og tvö ár að þremur. Mér leið vel, ég naut þess að spila fótbolta, sambandið gekk vel, eignuðumst börn og ég er hér enn. Þetta var ekki planið en þetta gerðist."

„Ég var að læra íþróttavísindi og fékk tækifæri til að koma til Íslands. Ég fór á reynslu til Njarðvíkur, ég var ungur og langaði að prófa og sjá hvað myndi gerast. Meira og meira af lífi mínu var hér á Íslandi. Ég elska að fara til Englands og hitta fjölskylduna, en ég naut lífsins á Ísafirði - eins bilað og það hljómar."

„Mér finnst mikilvægt að ég sé nálægt krökkunum mínum, þau séu örugg. Það er ofarlega í huga þegar ég hugsa um kostina við að búa hér. Mér fannst alltaf gaman að spila með liðinu, í liðinu voru strákar á svipuðum aldri með svipuð áhugamál. Það er blanda af mörgu sem heillar við Ísafjörð. Ég er nokkuð einfaldur maður og ég hef allt sem ég þarf hér."

„Ég er ekki hrifinn af kuldanum og myrkrið getur verið nokkuð niðurdrepandi, en þú lærir að lifa með því. Þetta var erfitt í byrjun. Ég var einn vetur á Grenivík, kom í mars og það var ekki svo dimmt. Ég var keyrður heim til mín og þurfti svo að fara finna mér mat. Ég leit út um dyrnar og snjórinn náði mér upp að mitti. Ég hugsaði hvernig í andskotanum ég ætti að fara að því að komast út í búð. Ég sá manneskjunni ferðinni svo ég skellti mér út, hugsaði að fyrst að þessi gæti þetta þá gæti ég það. Ég var auðvitað ekki með rétta klæðnaðinn í það, kom rennblautur heim. Þetta snerist um að lifa af,"
segir Badu á léttu nótunum.

Óvíst hver verður aðstoðarþjálfari
Vladan Djogatovic verður áfram í þjálfarateymi Vestra sem markmannsþjálfari og Ferran Montes Corominas verður áfram þrek- og styrktarþjálfari liðsins. Óljóst er þó hver verður aðstoðarþjálfari Badu. Vignir Snær Stefánsson aðstoðaði Davíð Smára og svo Jón Þór á liðnu tímabili en ekki er víst hvort hann verði áfram.

„Það er mjög sterkt að halda Vladan og Ferran. Vonandi verður Vignir áfram, það er undir honum komið."

Margar breytingar á hópnum
Badu vill auðvitað að hópurinn komi saman sem fyrst.

„Ef það væri búið að ganga frá öllum leikmannamálum þá myndum við örugglega byrja með alla hér á Ísafirði í janúar, en þannig verður þetta örugglega ekki. Strákarnir sem eru hér munu byrja að æfa 1.desember. Ef það snjóar þá verða þetta hlaup og lyftingar, en ef það verður hægt að spila fótbolta þá munum við gera það. Það er möguleiki á að það verði settur hiti undir völlinn, fólk sem ég hef rætt við vill að það verði gert. Það hafa orðið framfarir á aðstöðunni, hún er alltaf að verða betri. Hrós á þá sem hafa komið að því og vonandi verður unnið áfram að því að bæta fótboltann hér. Þetta er ekki bara fyrir okkur í karlaliðinu, þetta hjálpar líka krökkunum og kvennaliðinu líka.

„Þetta verður púsl og þeir leikmenn sem við vitum að viljum fá, viljum við fá inn í janúar. Svo verður að koma í ljós með framhaldið, hvenær við finnum réttu mennina fyrir liðið."

„Það voru margir sem áttu góð tímabil í ár, heilluðu önnur félög og það verður erfitt að halda þeim. Þeir vilja einhverjir skoða aðra kosti. Það væri auðveldara að halda mönnum ef við værum ennþá í Bestu, en við sjáum hvað gerist."

„Listinn yfir leikmenn sem eru samningslausir er langur, það er hægt að búa til byrjunarlið úr því. Ég held að við þurfum að horfa í flestar ef ekki allar stöður, en það eru góðir leikmenn sem verða áfram."


Frábært að halda Elmari og Pétri
Á meðal þeirra sem verða áfram eru Pétur Bjarnason og Elmar Atli Garðarsson. Hversu mikilvægt er það?

„Það er frábært, báðir eru þeir góðir leikmenn og við þurfum augljóslega að hafa menn sem eru hér á svæðinu og þekkja félagið. Vonandi verða þeir ekki einu strákarnir héðan af þeim sem spiluðu í sumar sem verða áfram."

Fór að ráði Gunnars Heiðars
Badu ræddi við fyrrum þjálfara liðsins, Gunnar Heiðar Þorvaldsson, áður en hann tók starfið að sér.

„Ég ræddi við nokkra aðila, þar á meðal Gunnar Heiðar. Hann sagði að þetta væri gott skref fyrir mig, ég tók ráði hans og núna þarf ég að sigra hann í deildinni. Það verður gaman," segir Badu og hlær en Gunnar Heiðar tók við sem þjálfari HK á dögunum.

Hann segir að næsta viðtal geti mögulega verið á íslensku. „Íslenskan mín er ekki góð, en kannski getum við tekið næsta símtal á íslensku," segir Badu á íslensku í lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner