mið 12. desember 2018 07:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Atlanta ekki fengið formlegt tilboð í Almiron
Orðaður við félög í ensku úrvalsdeildinni
Miguel Almiron.
Miguel Almiron.
Mynd: Getty Images
Atlanta vann MLS-deildina. Í liðinu eru margir spennandi leikmenn.
Atlanta vann MLS-deildina. Í liðinu eru margir spennandi leikmenn.
Mynd: Getty Images
Miguel Almiron, paragvæskur miðjumaður Atlanta United, hefur verið orðaður við félög í ensku úrvalsdeildinni en samkvæmt forseta félagsins hefur ekkert formlegt tilboð borist í hann.

Almiron átti stóran þátt í því að Atlanta tryggði sér sigurinn í MLS-deildinni um liðna helgi. Atlanta var einungis að spila sitt annað tímabil í MLS-deildinni sem gerir afrekið enn merkilegra.

Í liðinu eru nokkrir athyglisverðir leikmenn, fáir ef enginn athyglisverðari en Almiron.

Almiron er 24 ára miðjumaður sem kom til Atlanta frá Lanús í Argentínu fyrir tveimur árum síðan. Hann skoraði 12 mörk og lagði upp 14 á þessu tímabili og hefur sannað það að hann sé tilbúinn að taka skrefið til Evrópu.

Hann hefur verið orðaður við félög eins og Arsenal, Tottenham og Newcastle. Líklegt þykir að hann fari frá Atlanta þegar janúarglugginn opnar en enn sem komið er, þá hefur ekkert tilboð borist.

„Það hefur verið mikill áhugi, ekki bara frá Englandi heldur líka frá öðrum stórum félögum í Evrópu," sagði Darren Eales, forseti Atlanta United, en þetta kemur fram hjá Atlanta Journal Constitution.

„Það er skiljanlegt ef tekið er mið af því hvernig hann hefur verið að spila en hann á þrjú ár eftir af samningi hér. Hann er einn af okkar bestu leikmönnum. Við erum meistarar. Við erum með eiganda sem vill vinna. Ef tilboð kemur sem er rétt fyrir alla þá munum við skoða það."

Talið er að Atlanta sé búið að finna arftaka fyrir Almiron. Gonzalo 'Pity' Martinez, leikmaður River Plate í Argentínu, segist vera á leiðinni til Atlanta.

Fleiri leikmenn gætu verið á förum frá Atlanta og ber þar helst að nefna sóknarmanninn Josef Martinez. Hann bætti markametið í MLS-deildinni yfir flest mörk skoruð á einu tímabili og var svo valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar eftir sigur Atalnta á Portland.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner