Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 13. janúar 2023 18:00
Ívan Guðjón Baldursson
Trossard vill sölu frá Brighton - Segir De Zerbi bola sér burt
Trossard hefur skorað 25 mörk og gefið 14 stoðsendingar í 116 úrvalsdeildarleikjum.
Trossard hefur skorað 25 mörk og gefið 14 stoðsendingar í 116 úrvalsdeildarleikjum.
Mynd: EPA
Trossard sakar Roberto De Zerbi um að bola sér burt frá Brighton.
Trossard sakar Roberto De Zerbi um að bola sér burt frá Brighton.
Mynd: EPA

Belgíski sóknartengiliðurinn Leandro Trossard virðist vera búinn að spila sinn síðasta leik fyrir Brighton eftir rifrildi við Roberto De Zerbi, knattspyrnustjóra félagsins.


Trossard er ekki í leikmannahópi Brighton fyrir leikinn gegn Liverpool á morgun og sagði De Zerbi við fjölmiðla að það væri vegna þess að hann sé ósáttur með hugarfarið sem Trossard hefur verið að sýna.

Josy Comhair, umboðsmaður Trossard, er búinn að birta yfirlýsingu vegna málsins og biður félagið um að sýna samstarfsfýsi með mögulegum kaupendum.

„Leandro lenti lítillega upp á kant við liðsfélaga sinn á æfingu eftir að hann kom heim frá Katar en Roberto De Zerbi hefur ekki yrt á hann síðan atvikið átti sér stað. Það er augljóslega ekki gott fyrir andrúmsloftið," segir meðal annars í yfirlýsingu Comhair.

„Leandro hélt byrjunarliðssætinu í næstu tveimur leikjum en var settur á bekkinn gegn Everton. Hann var ekki notaður sem ein af fimm skiptingum leiksins og allt þetta án útskýringar."

Trossard missti af bikarleik gegn Middlesbrough vegna kálfameiðsla og var svo látinn æfa einn síns liðs, fjarri liðsfélögunum.

„Leandro hætti að mæta á æfingar fyrir leikinn gegn Middlesbrough vegna kálfameiðslanna. Það var í samráði við læknateymi félagsins. Þegar hann mætti aftur til æfinga sagði stjórinn honum svo að æfa einn síns liðs.

„Á mánudaginn ákvað stjórinn svo að niðurlægja Leandro fyrir framan allan hópinn og ýjaði í leiðinni að því að hann vilji ekki sjá hann framar. Það er algjörlega óskiljanlegt að stjórinn sé ekki búinn að eiga bein samskipti við Leandro í fjórar vikur. Hann hefur nokkrum sinnum ýjað að því að félagsskipti gætu verið besta lausnin.

„Það er því mikilvægt að Brighton sýni samstarfsvilja með mögulegum kaupendum í félagsskiptaglugganum svo hægt sé að leysa þetta mál á jákvæðan hátt fyrir alla aðila."


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner