þri 13. febrúar 2018 17:52
Elvar Geir Magnússon
Gæti Wenger farið frá Arsenal í sumar?
Síðasta tímabil Wenger?
Síðasta tímabil Wenger?
Mynd: Getty Images
Daily Mail segir að bak við tjöldin hjá Arsenal sé tilbúið skipulag varðandi að Arsene Wenger láti mögulega af störfum sem knattspyrnustjóri félagsins næsta sumar.

Wenger skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við Arsenal fyrir tímabilið og er sjálfur pottþétt tilbúinn að klára þann samning.

En í augum æðstu manna Arsenal er framtíð Wenger hjá félaginu eftir þetta tímabil ekki ljós, ef marka má frétt Daily Mail.

Staða Wenger verður traustari ef liðið nær að komast í Meistaradeildina en eins og staðan er núna er afar ólíklegt að það gerist í gegnum deildina. Arsenal er átta stigum frá fjórða sætinu þegar ellefu umferðir eru eftir.

Wenger hefur þó aðra leið til að komast í Meistaradeildina og það er með því að vinna Evrópudeildina. Arsenal leikur fyrri leik sinn gegn sænska liðinu Östersund í 32-liða úrslitum á fimmtudag.

Wenger hefur hingað til verið að hvíla menn í leikjum Evrópudeildarinnar en líkleg er að helsta áhersla hans fari núna í þá keppni.

Með því að komast í Meistaradeildina stendur Arsenal mun betur að vígi varðandi alla styrktaraðila og innkoman eykst gríðarlega.

Þá styrkir það líka stöðu Wenger ef hann nær að vinna deildabikarinn en þar leikur liðið úrslitaleik gegn Manchester City síðar í þessum mánuði.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner