þri 13. febrúar 2018 12:30
Elvar Geir Magnússon
Henry við Rashford: Þú verður að spila
Rashford í viðtali með Paul Pogba.
Rashford í viðtali með Paul Pogba.
Mynd: Getty Images
Marcus Rashford gæti þurft að skoða það að yfirgefa Manchester United næsta sumar. Þetta segir Arsenal goðsögnin Thierry Henry.

Rashford missti af tapleiknum gegn Newcastle síðasta sunnudag vegna smávægilegra meiðsla. Þessi tvítugi sóknarmaður hefur ekki byrjað neinn af sex síðustu leikjum United í deildinni.

Koma Alexis Sanchez hefur gert það að verkum að Mourinho vill spila honum á vinstri væng sóknar United og Anthony Martial skiptist á hægri vænginn.

Romelu Lukaku er fyrsti kostur í fremstu stöðuna og skyndilega er Rashford búinn að færast aftar í goggunarrröðina.

„Að mínu mati er eitt það mikilvægasta á þessum aldri að spila. Þú getur ekki bara verið á bekknum og misst af leikjum, misst af því að læra um leikinn og stöðva uppbygginguna," segir Henry.

„Michael Owen náði að afreka það sem hann gerði því hann spilaði og spilaði - Og ég get gefið fleiri dæmi."

Þarf Rashford að skipta um lið?

„Ég ætla ekki að taka svo sterkt til orða. Augljóslega vill hann spila fyrir United en hann verður að spila og það er erfiðara fyrir hann að fá mínútur eftir að Sanchez kom," segir Henry.

Rashford hefur spilað 37 leiki í öllum keppnum á þessu tímabili og skorað 10 mörk. Eini byrjunarliðsleikur hans síðustu sex vikur kom í bikarnum.

„Mín skilaboð til hans eru: Þú verður að spila. Það gæti verið hjá Manchester United en hann hefur ekki fengið þá röð leikja sem hann þarf. Ég veit ekki hvort hann sé að hugsa um að fara eða ekki en hann þarf að spila."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner