þri 13. mars 2018 17:00
Magnús Már Einarsson
Víkingurinn Birkir var mjög vinsæll hjá Basel
Icelandair
Birkir Bjarnason í leik með Basel fyrir nokkrum árum.
Birkir Bjarnason í leik með Basel fyrir nokkrum árum.
Mynd: Getty Images
Svissneska félagið Basel saknar íslenska landsliðsmannsins Birkis Bjarnasonar að sögn Christoph Kieslich blaðamanns TagesWoche í Sviss.

Birkir fór til Aston Villa fyrir rúmu ári síðan eftir að hafa gert góða hluti með Basel þar sem hann varð tvívegis svissneskur meistari.

„Hann var tæp tvö ár hjá Basel og við minnumst hans sem leikmaður sem var mjög klókur," sagði Christoph við Fóbolta.net á dögunum

„Ég tel að bestu ár ferils hans hafi verið hjá Basel þar sem hann vann titla og skoraði mörk. Hann er baráttujaxl og fólk elskar alltaf leikmenn sem sýna þá takta sem Birkir sýndi hjá Basel," bætti Christoph við en Birkir var mjög vinsæll hjá stuðningsmönnum Basel.

„Hann átti marga aðdáendur hjá Basel og ekki síst kvenkyns aðdáendur. Hann er eins og víkingur með síða hárið sitt og baráttuandann."

Valdatíð Basel að ljúka
Basel hefur orðið svissneskur meistari átta ár í röð en nú bendir allt til þess að þeirri valdatíð sé lokið í bili. Young Boys er 17 stigum á undan Basel og þrátt fyrir að Basel eigi tvo leiki til góða er ólíklegt að liðið verji titilinn.

„Það urðu miklar breytingar síðastliðið sumar og í janúar komu sex nýir leikmenn á meðan sex fóru. Ég held að það verði mjög erfitt fyrir liðið að verða meistari á þessu tímabili," sagði Kieslich.

Guðlaugur Victor og Rúnar Már gera góða hluti
Tveir Íslendingar eru í svissnesku úrvalsdeildinni en Rúnar Már Sigurjónsson er á mála hjá St. Gallen sem er í 3. sæti og Guðlaugur Victor Pálsson spilar hjá FC Zurich sem er í 4. sætinu.

„Þeir eru báðir að standa sig mjög vel. Pálsson og félagar í Zurich eru komnir í bikarúrslit. Það er vel gert hjá liði sem var að koma upp úr 2. deild," sagði Kieslich.
Athugasemdir
banner
banner
banner