mið 13. mars 2019 13:45
Arnar Daði Arnarsson
Andri Steinn inn í þjálfarateymi Kórdrengja - Markmiðin skýr
Andri Steinn er kominn í þjálfarateymi Kórdrengja.
Andri Steinn er kominn í þjálfarateymi Kórdrengja.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Smári segir markmiðin skýr.
Davíð Smári segir markmiðin skýr.
Mynd: .
Andri Steinn Birgisson hefur verið ráðinn inn í þjálfarateymi Kórdrengja í 3. deildinni. Þetta staðfesti Davíð Smári annar af þjálfurum Kórdrengja í samtali við Fótbolta.net.

„Þetta er gríðarlegur styrkur fyrir félagið. Hann er flottur þjálfari og er að vinna í því að fá UEFA A þjálfararéttindin og ég er að fara í prófið fyrir UEFA B réttindin. Við erum æskuvinir og ég held að við séum ágætisteymi. Við bætum hvern annan upp," sagði Davíð Smári.

Í gær tilkynntu Kórdrengir að liðið hafi fengið til sín tvo erlenda leikmenn frá Trinidad og Tobago.

Markmiðin eru skýr
„Keston George hafði komið hingað á reynslu árið 2016 hjá Þrótti Vogum. Han var í sambandi við mann hér á Íslandi og var alltaf að bíða eftir tækifæri á að spila hér. Í gegnum það kemur Yohance Marshall inn í myndina. Ég var að leita af miðverði og þá kom hann til tals."

„Við fengum þá til að koma hingað og æfa hjá okkur í viku. Við tókum ákvörðun eftir það að semja við þá," sagði Davíð Smári sem segir það ekki hafa verið erfitt að sannfæra þá um að koma til Íslands og spila í 3. deildinni.

„Ég held að þeir hafi fundið fyrir metnaðnum hjá félaginu. Það er gríðarlegur metnaður ekki bara hjá þjálfarateyminu heldur einnig hjá öllum leikmönnunum. Þessir leikmenn sem við höfum verið að fá eru ekkert komnir hingað til að deyja út. Þetta eru leikmenn sem eru komnir til að hjálpa félaginu á næsta level. Við værum ekkert að leggja svona mikið á okkur ef við ætluðum að vera í einhverju miðjumoði. Markmiðin eru skýr."

„Við ætlum að gera allt sem í okkur valdi stendur til að fara upp en við gerum okkur grein fyrir því að þó svo að við séum að fá einhver gömul nöfn sem eru með flottan feril þá verður þetta ekkert auðvelt. Það eru margir sem spá því að við förum beint upp og þetta verður walk in the park en þetta verður alls ekkert svoleiðis. Ég held að 3. deildin hafi aldrei verið jafn sterk og þetta verður mjög erfitt."

Davíð segir að Kórdrengirnir eigi eftir að bæta við sig fleiri leikmönnum áður en tímabilið fer af stað.

„Það er ýmislegt annað í gangi varðandi leikmenn. Við erum ekki alveg búnir að loka hópnum. Það verða 1-2 tilkynningar í viðbót en það er eitthvað sem gerist ekki alveg strax," sagði Davíð Smári þjálfari Kórdrengja að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner