Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 13. mars 2021 09:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Algjör plús að geta talað íslensku á vellinum og enginn skilur neitt"
Hefði verið gaman að skora fleiri en Miedema
Ég hef fulla trú á því að þetta fari að detta með okkur
Ég hef fulla trú á því að þetta fari að detta með okkur
Mynd: Le Havre
 Ég viðurkenni að ég átti í miklum erfiðleikum með að höndla þetta í byrjun tímabils
Ég viðurkenni að ég átti í miklum erfiðleikum með að höndla þetta í byrjun tímabils
Mynd: Le Havre
Berglind hefur skorað 137 mörk í 190 leikjum í efstu deild á Íslandi
Berglind hefur skorað 137 mörk í 190 leikjum í efstu deild á Íslandi
Mynd: Le Havre
Þetta er þolinmæðis vinna og ég fagna samkeppninni.
Þetta er þolinmæðis vinna og ég fagna samkeppninni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hugsaði samt strax um færin sem ég klúðraði, hefði verið gaman að skora fleiri en Miedema.
Hugsaði samt strax um færin sem ég klúðraði, hefði verið gaman að skora fleiri en Miedema.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Andrea Rán í leik með Breiðabliki, hún er að láni þaðan hjá Le Havre
Andrea Rán í leik með Breiðabliki, hún er að láni þaðan hjá Le Havre
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Berglind og Anna Björk í baráttunni fyrir nokkrum árum
Berglind og Anna Björk í baráttunni fyrir nokkrum árum
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Berglind og Steini
Berglind og Steini
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Franska deildin er klárlega sterkasta deildin sem ég hef spilað í
Franska deildin er klárlega sterkasta deildin sem ég hef spilað í
Mynd: Le Havre
Berglind Björg Þorvaldsdóttir gekk í raðir Le Havre í byrjun september á síðasta ári, hún fór til Frakklands frá Breiðabliki. Berglind er leikmaður sem þekkt er fyrir mikla markaskorun.

Hún hjálpaði þá íslenska landsliðinu að tryggja sér sæti á fjórða Evrópumótinu í röð með því að skora í síðustu tveimur leikjum þess og sigurmarkið gegn Ungverjalandi í lokaleik riðilsins. Fótbolti.net hafði samband við Berglindi í vikunni og spurði hana út í síðasta hálfa ár eða svo.

Gaman að fá viðurkenningu en erfitt að njóta hennar
Berglind byrjaði nokkuð vel hjá franska félaginu og skoraði þrjú mörk í fyrstu sex leikjunum sínum. Þar á meðal mark mánaðarins í september. Á sama tíma var liðinu ekki að ganga vel, einungis eitt stig fékkst úr þessum sex leikjum. Liðið hafði unnið í fyrstu umferðinni en þá lék Berglind ekki með.

„Þetta byrjar í rauninni ágætlega. Vinnum fyrsta leik 4-0 og það er góður andi í hópnum. Við töpum svo næsta leik og höfum nánast verið í veseni síðan þá. Það var gaman að fá viðurkenningu fyrir mark mánaðarins, en erfitt á sama tíma að njóta þess á meðan við erum að tapa leikjum," sagði Berglind.

Átt erfitt með að höndla töpin komandi frá sigursælu liði Breiðabliks
Mörkin eru þrjú hjá Berglindi í ellefu leikjum, er hún sátt með sína spilamennsku til þessa? Liðið hefur ekki unnið síðan í fyrstu umferð, er um óheppni að ræða eða vantar herslumun? Hvað er það sem þarf að gerast til að Le Havre nái í fleiri stig?

„Nei, ég get ekki sagt að ég sé sátt með hvernig hefur gengið á tímabilinu. Við erum í rauninni búnar að vera ótrúlega óheppnar. Það hefur verið mikið um meiðsli og covid-19 vesen í liðinu, við höfum nánast aldrei náð að spila með sama byrjunarlið þrjá leiki í röð. Það voru nokkrir leikir sem við áttum að vinna en vorum oft að fá á okkur klaufaleg mörk seint í leikjum og töpuðum því í kjölfarið."

„Við erum oft ótrúlega nálægt því að ná inn stigi eða stigum. Þetta er bara spurning um hugarfar núna. Það tekur gríðarlega á að mæta á æfingar á hverjum einasta degi eftir að hafa tapað leik eftir leik. Ég viðurkenni að ég átti í miklum erfiðleikum með að höndla þetta í byrjun tímabils, komandi frá Breiðabliki þar sem við unnum flest allt. En núna erum við í þeirri stöðu að við erum að berjast fyrir lífi okkar í deildinni og ég hef fulla trú á því að þetta fari að detta með okkur."


Send á bráðamóttökuna - Var með vökva í kringum hjartað og lungun
Berglind missti af leiknum gegn PSG fyrir jól vegna covid en kom svo aftur inn í liðið gegn Issy í fyrsta leik í janúar. Hvað gerðist svo eftir þann leik? Af hverju missti Berglind af næstu þremur leikjum?

„Ég greindist með covid í byrjun desember og missti af PSG leiknum. Sem betur fer var jólafrí eftir þann leik svo ég hafði smá tíma til að jafna mig eftir veikindin. Ég náði svo að koma til Íslands 23. desember, fór svo út aftur tíu dögum seinna og þar tók við tveggja vikna „undirbúningstímabil“. Ég var ekki búin að ná að æfa neitt eftir að ég greindist með covid og fór beint í það að æfa tvisvar á dag, sem fór alls ekki vel í líkamann," sagði Berglind

„Ég spilaði svo allan leikinn gegn Issy en byrjaði svo að versna í líkamanum strax eftir leikinn og var send á bráðamóttökuna. Ég fór í rannsóknir þar og myndatöku tveimur dögum seinna, þar kom í ljós að ég var með vökva í kringum hjartað og lungun."

„Í kjölfarið var ég sett á tíu daga lyfjakúr og skipað að hreyfa mig ekki neitt á meðan. Eftir það tók við endurhæfing, og sex vikum seinna náði ég að spila aftur með liðinu. Eftirköstin af covid hafa tekið mjög mikið á andlega og líkamlega."


Berglind lék allan leikinn gegn Fleury um síðustu helgi. Hvernig er líðanin í dag?

„Ég er á fínum stað í dag og þakklát fyrir að vera komin aftur á völlinn."

Franska deildin sú sterkasta
Berglind hefur leikið með AC Milan, Verona og PSV á sínum ferli erlendis. Hvernig er Le Havre frábrugðið þeim félögum? Er umgjörðin svipuð?

„Já, þetta er í rauninni allt svipað. Umgjörðin, aðstaðan og allt í kring hjá þessum liðum sem ég hef spilað fyrir hefur verið mjög fín – allt til staðar og lítið að kvarta yfir."

Hvernig er franska deildin miðað við þá ítölsku og hollensku á sínum tíma?

„Franska deildin er klárlega sterkasta deildin sem ég hef spilað í. Leikmenn eru mun meira 'physical' hérna og í betra líkamlegu standi en t.d. á Ítalíu og í Hollandi. Hver einasti leikur er erfiður og þú þarft að hafa mikið fyrir hverjum leik. Þrátt fyrir að við sitjum á botninum, þá eru allir að vinna alla frá 3. sæti og niður sem gerir deildina skemmtilega."

Benti á Andreu og Önnu
Hjá Le Havre leika einnig þær Anna Björk Kristjánsdóttir og Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir. Á Berglind einhvern þátt í því að þær Andrea og Anna Björk komu í kjölfarið á henni til Frakklands?

„Já, ég kom með ábendingu til þjálfarans til að styrkja liðið, þar sem liðið var í miklum meiðslum. Þjálfarinn var opinn fyrir því svo ég hafði samband við Önnu sem var til í þetta."

„Það sama í rauninni gerist með Andreu, það var eitthvað um meiðsli á miðjumönnunum okkar og ég heyri í Andreu sem var spennt fyrir þessu. Þær báðar hafa staðið sig frábærlega vel og hafa styrkt liðið gríðarlega. Svo er algjör plús að geta talað íslensku á vellinum og enginn skilur neitt."


Gríðarlega erfitt að kveðja Breiðablik
Að félagsskiptunum, var auðveldara að segja já við Le Havre þar sem Breiðablik var í bílstjórasætinu í deildinni á þeim tímapunkti sem félagsskiptin áttu sér stað?

„Já og nei. Það var gríðarlega erfitt að kveðja liðið sitt og félagið, en ég átti mörg góð samtöl um þetta tækifæri og þetta var eitthvað sem mig langaði að stökkva á. Það voru önnur lið búin að hafa samband en deildin hérna heillaði mest."

Ungu leikmennirnir stigu upp og blómstruðu
Var einhver leikmaður eða eitthvað við Breiðabliksliðið sem kom Berglindi á óvart í fyrra?

„Nei, í rauninni ekki. Það hefur verið sami kjarninn í liðinu í mörg ár og Steini búinn að þjálfa okkur lengi. En það sem kom kannski mest á óvart voru yngri leikmennirnir, þær stigu upp og náðu að blómstra um sumarið."

Finnst henni Breiðablik líklegast til að verða Íslandsmeistari í sumar?

„Já, ég hef mikla trú á þeim. Liðið er vissulega mjög breytt frá því á síðasta tímabili þannig ég er mjög spennt að sjá þær í sumar."

„Mun lifa lengi á þessum minningum með hópnum"
Hvernig var að enda uppi sem markahæsti leikmaður Meistaradeildarinnar í fyrra? Berglind skoraði jafnmörg mörk og Vivianne Miedema sem leikur með Arsenal.

„Það er skemmtileg viðurkenning að hafa náð því. Ég hugsaði samt strax um færin sem ég klúðraði, hefði verið gaman að skora fleiri en Miedema."

„En þetta var þvílíkt ævintýri og okkur gekk mjög vel í Meistaradeildinni. Maður mun lifa lengi á þessum minningum með hópnum."


Fékk Berglind einhverja viðurkenningu fyrir afrekið frá UEFA?

„Nei, ég fékk ekki neitt frá þeim."

Fagnar samkeppninni - Ólýsanleg tilfinning
Að landsliðinu, Berglind kom inn í byrjunarliðið fyrir leikinn gegn Slóvakíu og skorar þar í þeim leik. Hún byrjaði einnig gegn Ungverjalandi og skoraði aftur. Var hún orðin eitthvað pirruð að vera geymd á bekknum?

„Það er gífurleg samkeppni að komast í byrjunarliðið hjá landsliðinu og auðvitað vill maður byrja alla leiki. Ég hef fengið mínútur hér og þar og er það mitt að nýta það tækifæri sem mér gefst. Þetta er þolinmæðis vinna og ég fagna samkeppninni."

Hvernig var að skora markið sem skaut liðinu áfram í lokakeppnina? Markið gegn Ungverjalandi reyndist sigurmarkið og þau þrjú stig tryggðu liðinu farseðilin til Englands.

„Sú tilfinning var eiginlega bara ólýsanleg."

Fáránlega yfirvegaður en getur samt öskrað inn á milli
Hvernig líst Berglindi á að fá Steina, Þorstein Halldórsson, inn sem landsliðsþjálfara?

„Mér líst vel á það. Steini er einn besti þjálfari sem ég hef haft og ég veit hann á eftir að gera góða hluti með landsliðinu. Hann er fáránlega yfirvegaður en getur samt sem áður tekið eitt og eitt öskur inn á milli ef þú ert ekki að gera þetta 100%."

Ekki á leiðinni heim á næstunni
Að lokum, er það í áætlunum Berglindar að spila á Íslandi á næstunni?

„Nei, ég er ekki á leiðinni heim á næstunni," sagði Berglind.

Næsti leikur Le Havre er í dag gegn Montpellier á heimavelli.
Athugasemdir
banner
banner
banner