Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 13. mars 2021 20:50
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Bríet um stærsta augnablikið: Hrikalega stórt að ná þessu
Íslenska dómarafernan.
Íslenska dómarafernan.
Mynd: KSÍ
Bríet að störfum.
Bríet að störfum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Dómarinn Bríet Bragadóttir var gestur í nýjasta þætti af Heimavellinum.

Bríet ræddi um dómarastarfið við þær Huldu Mýrdal og Mist Rúnarsdóttur en rödd dómara heyrist afar sjaldan í fjölmiðlum. Bríet gefur áhugaverða innsýn í þetta vanmetna en gríðarlega mikilvæga starf.

Bríet talaði meðal annars um það þegar hún var fjórði dómari hjá hinni þýsku Bibiönu Steinhaus.

Steinhaus náði gríðarlega langt á sínum dómaraferli og dæmdi meðal annars í úrvalsdeild karla í Þýskalandi.

„Ég var fjórði dómari á landsleik sem Bibiana Steinhaus dæmdi og þetta var í fyrsta skipti sem ég sá dómara og hugsaði með mér: 'Vá, geggjað'. Þvílík hlaup út um allt, með allt á hreinu og flottar bendingar. Ótrúlega flottur dómari."

Bríet fékk tækifæri til að ræða við Steinhaus en stærsta augnablikið á ferli Bríetar kom í fyrra. Það var þegar hún var aðaldómari á landsleik Wales og Færeyja í undankeppni EM. Með henni voru þrír aðrar íslenskar konur. Þetta var í fyrsta sinn sem fjórar íslenskar konur skipuðu dómarakvartett í alþjóðlegum leik A-landsliða á erlendri grundu.

Aðstoðardómarar voru þær Rúna Kristín Stefánsdóttir og Eydís Einarsdóttir, og fjórði dómari var Bergrós Unudóttir.

„Stærsta augnablikið var þessi A-landsleikur sem var svo hrikalega stórt að ná," sagði Bríet.

„Það var langur aðdragandi að þessu. Ég verð FIFA-dómari 2018 og þá byrjar það yfirleitt þannig að maður fer út á nýliðaráðstefnu þar sem eru tekin alls konar þrekpróf, reglupróf og ýmislegt. Eftir það færðu unglingamót sem er yfirleitt undankeppni EM kvenna; U17, U19 eitthvað svoleiðis. Svo færðu milliriðil, svo færðu A-landsleik og svo lokakeppni. Ef allt gengur vel er þetta eðlileg þróun á ferli. Ég var búin að vera það lengi inn á listanum að þetta var eðlileg þróun að ég myndi fá landsleik svo þau gætu skoðað mig úti."

„Ég hefði getað fengið lánað frá öðrum löndum. Það er ekki jafnvel séð en það er hægt."

„Okkur gekk ótrúlega vel og fengum mjög flott meðmæli og dóma," sagði Bríet en hún vonast til þess að fá A-landsleik í undankeppni HM.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér að neðan.
Heimavöllurinn: Bríet Bragadóttir: Ekki hægt að skulda í dómgæslu
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner