
Eliezer Mayenda lék allan leikinn í kvöld. Hann lék einnig allan tímann í fyrri leiknum og skoraði annað marka Sunderland í sigrinum á útivelli.
Régis Le Bris þjálfari Sunderland var gríðarlega ánægður eftir að hans menn tryggðu sér þátttökurétt í úrslitaleik umspils Championship deildarinnar.
Sunderland spilaði tvo undanúrslitaleiki við Coventry og fór seinni leikurinn í framlengingu þar sem staðan var 2-2 samanlagt.
Leikið var í Sunderland og tókst varnarmanninum Daniel Ballard að gera sigurmark leiksins með lokasnertingu leiksins á boltanum, með skalla eftir hornspyrnu á 122. mínútu.
„Þetta er virkilega stórkostleg leið til að komast í úrslitaleikinn. Við vorum ekki nógu góðir í dag en erum ánægðir að komast áfram. Við vorum alltof stressaðir fyrri hluta leiksins en í framlengingunni vorum við góðir," sagði Le Bris að leikslokum.
„Þetta var smá pirrandi í venjulegum leiktíma fyrir okkur sem sátum á bekknum. Við vitum að við getum spilað betri fótbolta."
Það var mikill munur á spilamennsku Sunderland fyrir og eftir lokaflaut venjulegs leiktíma. Le Bris þjálfari hafði breytt skipulagi liðsins fyrir heimaleikinn gegn Coventry.
„Við breyttum aftur til baka í okkar taktík fyrir framlenginguna og þá fékk leikstíllinn okkar að njóta sín."
Le Bris er mjög ánægður fyrir hönd leikmanna eftir sigurinn og þá sérstaklega Ballard sem er nýlega kominn aftur til baka úr meiðslum.
„Þessi síðasta hornspyrna var frábær. Ég er mjög ánægður fyrir hönd Ballard og allra strákanna. Þeir eiga þetta skilið og það er gríðarlega spennandi úrslitaleikur framundan."
Athugasemdir