fim 13. september 2018 18:00
Magnús Már Einarsson
Kjartan Stefáns: Við viljum fá íslenska leikmenn til okkar
Fylkir upp í Pepsi-deildina
Kjartan Stefánsson.
Kjartan Stefánsson.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Fylkir spilar í Pepsi-deildinni næsta sumar.
Fylkir spilar í Pepsi-deildinni næsta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Fylkir endurheimti á dögunum sæti sitt í Pepsi-deild kvenna en liðið er á toppnum í Inkasso-deildinni þegar ein umferð er eftir.

Kjartan Stefánsson, þjálfari liðsins, svaraði nokkrum spurningum um sumarið hjá Fylki.

Er árangurinn í sumar framar væntingum?
Við fórum rólega af stað, markmiðin voru uppbygging og aftur uppbygging. Í Lengjubikar var öllum ljóst að við værum lið sem ætti að blanda sér í toppbaráttuna í Inkasso. Jú við erum mjög ánægð með árangurinn en það er klárt að við stefndum að þessu.

Hver er lykillinn að þessum góða árangri?
Það er lykilatriði að allur aðbúnaður og umgjörð í kringum liðið sé gott. Skipulag og undirbúningur sé góður á vetrarmánuðum. Samsetning leikmannahópsins sé góð og leikmenn geri sér vel grein fyrir hlutverki sínu.

Hvernig er leikmannahópurinn byggður upp?
Leikmannahópurinn er samansettur af ungum leikmönnum í 3 og 2. flokki í bland við eldri og reynslumeiri leikmenn.

Er bilið mjög mikið á milli Pepsi og Inkasso-deildarinnar að þínu mati?
Bilið hefur minnkað nokkuð síðustu ár enda var lykilatriði að breyta fyrirkomulagi 1. deildar á sínum tíma. Staðan er þó þannig að 4 eftstu liðin eru í sérflokki og þar er bilið enn töluvert.

Reiknar þú með að liðið verði styrkt mikið fyrir átökin í Pepsi-deildinni næsta sumar?
Ég geri ráð fyrir því að liðið verði styrkt fyrir næsta sumar, hversu mikið verður bara að koma í ljós. Við viljum fá íslenska leikmenn til okkar sem vilja gerast Fylkismenn en það er ákveðin vinna sem fer í hönd nú á haustdögum.

Er mikill stuðningur við liðið í Árbænum?
Já það er góður stuðningur við lið og gott fólk í kringum okkur, sem hefur hjálpað okkur mikið á þessu tímabili.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner