þri 13. nóvember 2018 09:00
Magnús Már Einarsson
Aron: Skiptir ekki máli þó ég sé á síðasta ári samningsins
Mynd: Getty Images
„Þetta var risasigur fyrir okkur. Það var mikilvægt að ná í þrjú stig fyrir landsleikjahléið. Strákarnir stóðu sig mjög vel með því að koma til baka og vinna þennan leik," sagði Aron Einar Gunnarsson í viðtali við heimasíðu Cardiff eftir 2-1 sigurinn á Brighton um helgina.

Neil Warnock, stjóri Cardiff, var að stýra sínum hundraðasta leik hjá félaginu.

„Þú sérð muninn eftir að hann tók við og hvar við stöndum núna. Hann hefur unnið stórkostlegt starf. Allir hjá Cardiff vita hversu vel hann hefur unnið."

„Hann kemur strákunum í gang og allir vilja vinna í sömu átt hjá honum. Þetta gengur vel í augnablikinu og við þurfum að halda því áfram. Það er annar stór leikur framundan gegn Everton eftir landsleikjahléið."


Aron gerði nýjan eins árs samning við Cardiff og hann segist lítið vera að stressa sig á því að vera samningslaus næsta sumar.

„Ég ætla alltaf að leggja mig 100% fram, það skiptir ekki máli þó ég sé á síðasta ári samningsins. Ég er hér fyrir merki félagsins. Ég ætla að standa mig fyrir Cardiff, standa mig fyrir strákana, stuðningsmennina og alla sem tengjast Cardiff City. Þannig er ég bara, þannig hefur þetta verið og þannig verður þetta alltaf."

Aron er í íslenska landsliðshópnum sem mætir Belgíu í Þjóðadeildinni á fimmtudaginn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner