þri 13. nóvember 2018 19:37
Ívan Guðjón Baldursson
Neville bjóst ekki við að Scholes myndi slá í gegn
Mynd: Getty Images
Gary Neville var gestur í spjallvarpsþættinum Quickly Kevin, Will He Score? og spjallaði þar til lengdar um hvernig það var að koma upp í gegnum unglingastarf Manchester United ásamt Paul Scholes.

Neville segir að hann og fleiri úr '92 árganginum hafi ekki trúað að Scholes gæti orðið úrvalsdeildarleikmaður þegar hann var ungur, vegna þess hve veikburða og hægur hann var.

„Þegar við vorum unglingar þá trúðum við ekki að Scholesy gæti orðið einn af bestu leikmönnum heims. Hann var lítill og aumur, það var ekkert mál að ýta honum af boltanum. Svo var hann með astma svo hann gat hvorki hlaupið hratt né langt," sagði Neville.

„Á þessum aldri var Nicky Butt langt á undan. Hann var sterkur, kraftmikill og ótrúlega öflugur. Maður gat séð alla í liðinu verða að góðum leikmönnum, nema Scholes. Hann var góður á boltanum en hafði ekki burði til að ráða við allt sem var í gangi í kringum hann á vellinum.

„Ég man þegar Scholes var settur í vinstri bakvörð því þar var minni leðja heldur en á miðjunni og hann fékk meiri tíma á boltanum."


Það rættist þó heldur betur úr Scholes og eru margir sem telja hann vera einn af bestu knattspyrnumönnum í sögu Manchester United.

„Þetta breyttist allt þegar hann komst ekki í unglingaliðið 1992 og hætti þá að drekka bjór og fá sér bökur á föstudögum. Hann fór í gegnum stökkbreytingu á tveimur eða þremur árum og varð einn af bestu leikmönnum deildarinnar.

„Þjálfararnir hjá United sáu alltaf hvað gat orðið úr honum og ég man þegar Sir Alex sagði að við gætum allir hætt í fótbolta ef Scholes yrði ekki góður sem atvinnumaður. Þá var hann ekki nema 18 ára gamall.

„Í dag er hann besti leikmaður sem ég og margir aðrir höfum nokkurn tímann spilað með."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner