þri 13. nóvember 2018 20:00
Ívan Guðjón Baldursson
Özil hafnaði klikkuðum tilboðum frá Asíu
Mynd: Getty Images
Mesut Özil hafnaði klikkuðum samningstilboðum frá Asíu áður en hann skrifaði undir risasamning við Arsenal segir Dr. Erkut Sögüt, umboðsmaður hans.

Özil, sem er 30 ára, skrifaði undir samning sem gildir til 2022 og gerir hann að launahæsta leikmanni Arsenal.

„Við fengum virkilega stór tilboð frá Asíu, sum tilboðin voru klikkuð. En fyrir Mesut þá snerist þetta ekki aðeins um peninga," sagði Sögüt við Evening Standard.

„Peningarnir eru vissulega mikilvægir og fólk verður að átta sig á því að hæfileikar leikmanns eru bara einn þáttur í samningsviðræðum. Markaðsáhrif leikmanna eru einnig gríðarlega mikilvæg og er Özil gríðarlega vinsæll.

„Özil er með flesta fylgjendur af öllum leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar á samskiptamiðlum og á mest seldu treyjuna hjá Arsenal.

„Viðskiptahliðin er mjög mikilvæg þegar það kemur að leikmanni eins og Özil, sem hefur spilað í nokkrum löndum og var tían hjá þýska landsliðinu sem vann heimsmeistaramótið 2014."


Özil er búinn að spila tólf leiki undir stjórn Unai Emery á tímabilinu og hefur borið fyrirliðabandið í nokkrum leikjum.
Athugasemdir
banner
banner
banner