banner
   fim 13. desember 2018 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Özil gæti verið með í kvöld
Mynd: Getty Images
Mesut Özil er byrjaður að æfa á fullu með liðsfélögunum og gæti verið liðtækur gegn Hannesi Þóri Halldórssyni og félögum í Qarabag í kvöld.

Özil er búinn að missa af síðustu fimm leikjum Arsenal og var hvorki með gegn Tottenham né Manchester United í byrjun desember.

Þjóðverjinn skrifaði undir risasamning við Arsenal fyrr á árinu sem gerir hann að launahæsta leikmanni félagsins, en hluti stuðningsmanna vill losna við hann frá félaginu og hefur hann verið orðaður við brottför í janúar.

Það er þó afar ólíklegt að Özil geti yfirgefið Arsenal vegna þeirra ofurlauna sem hann fær hjá félaginu. Hann er aðeins búinn að spila helming leikja Arsenal á tímabilinu eða 884 mínútur í heildina. Hann er kominn með fjögur mörk og eina stoðsendingu í tólf leikjum.

Özil hefur verið gagnrýndur fyrir að virðast sýna áhugaleysi á vellinum og fyrir að vera oft fjarverandi á leikdegi vegna veikinda eða minniháttar meiðsla.

Ólíklegt er að Özil byrji gegn Qarabag en hann gæti komið inn af bekknum. Arsenal er búið að tryggja sér toppsæti riðilsins og mætir því væntanlega til leiks með mikið af varamönnum.

Unai Emery stjóri Arsenal mun þó leggja mikla áherslu á að liðið tapi ekki leiknum í kvöld, sem er á heimavelli. Liðið er ekki búið að tapa í 21 leik í röð á tímabilinu, sem er besti árangur liðsins í meira en áratug.

Özil gæti verið í byrjunarliði Arsenal um helgina þegar liðið heimsækir Southampton í ensku úrvalsdeildinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner