fim 13. desember 2018 13:00
Ívan Guðjón Baldursson
Stuðningsmenn Hoffenheim ásakaðir um fordóma
Mynd: Getty Images
Englandsmeistarar Manchester City tryggðu sér toppsæti F-riðils Meistaradeildarinnar með 2-1 sigri gegn Hoffenheim í gærkvöldi.

Þýski kantmaðurinn Leroy Sane gerði bæði mörk Man City en fregnir frá Englandi og Þýskalandi herma að hann hafi orðið fyrir kynþáttaníð þegar hann fagnaði jöfnunarmarki sínu.

Þessar fregnir berast aðeins nokkrum dögum eftir að stuðningsmenn Chelsea sýndu kynþáttaníð í garð Raheem Sterling.

Að leikslokum sagðist Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, ekkert vita um meintu kynþáttafordóma stuðningsmanna gestaliðsins, sem er skipað samlöndum Leroy Sane frá Þýskalandi.

„Ég veit ekki hvað gerðist. UEFA er að fylgjast með. Ef þetta gerðist þá er það slæmt en ég veit ekkert," sagði Pep, áður en hann hrósaði Sane fyrir jöfnunarmarkið sem hann skoraði beint úr aukaspyrnu af löngu færi.

„Fyrsta markið var fallegt. Annað markið var smá heppni því hann náði ekki góðri stjórn á boltanum, en hann náði að klára færið."

Sane verður 23 ára gamall í janúar og er hann búinn að skora 31 mark í 106 leikjum fyrir Man City í öllum keppnum. Hann er kominn með 6 mörk í 14 deildarleikjum á tímabilinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner