sun 14. apríl 2019 13:50
Ívan Guðjón Baldursson
Ungir leikmenn Bolton eiga ekki efni á að mæta á æfingar
Andrew Taylor hefur verið hjá Bolton síðan hann kom á láni fyrir þremur árum.
Andrew Taylor hefur verið hjá Bolton síðan hann kom á láni fyrir þremur árum.
Mynd: Getty Images
Ástandið hjá Bolton Wanderers er orðið skelfilegt og stefnir félagið í gjaldþrot. Eigandanum tekst ekki að selja félagið og þurfa leikmenn að borga allt undir sig sjálfir.

Ákveðnir leikmenn hafa misst af nokkrum greiðslum, í samráði við stjórn félagsins, og skuldar félagið mikinn pening. Það er einmitt vegna skuldanna sem Bolton er að berjast fyrir lífi sínu þessa stundina þar sem skuldunautar félagsins krefjast þess að það verði gert gjaldþrota.

Andrew Taylor er 32 ára varnarmaður félagsins og var hann tekinn í viðtal á BBC Radio 5 þar sem hann lýsti ástandinu. Hann útskýrði þar hvernig yngri leikmenn félagsins eiga ekki efni á því að koma sér á æfingar eða leiki.

„Nokkrir af strákunum þurftu að hjálpa þeim yngri því þeir áttu ekki efni á lestarmiðum til að mæta á æfingar. Það er óþægilegt að vita ekki hvort maður fái borgað, hvort sem maður fær 100 pund á viku eða 100 þúsund. Þetta er mjög streituvaldandi ástand," sagði Taylor.

„Stærsta vandamálið hérna er eflaust samskiptaleysið. Við vitum ekki hvað er að gerast bakvið tjöldin, við vitum ekki einu sinni hvort við fáum borgað. Við erum búnir að gera okkar besta allt tímabilið en þetta er byrjað að hafa veruleg áhrif á einkalíf fólks."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner