mið 14. ágúst 2019 18:19
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
De Boer um jöfn laun kvenna og karla: Fáránlegt
Frank de Boer.
Frank de Boer.
Mynd: Getty Images
Knattspyrnustjórinn Frank de Boer segir að umræðan um að jafna laun kynjanna í fótbolta sé „fáránleg".

De Boer var í hollenska landsliðinu frá 1990 til 2004. Hann spilaði 112 landsleiki og skoraði í þeim 13 mörk.

Hollenska knattspyrnusambandið er með áætlun um að kvennalandsliðið fái jöfn laun og karlalandsliðið árið 2023. Hollenska kvennalandsliðið er ríkjandi Evrópumeistari og fór úrslitin á HM kvenna í sumar. Á meðan hefur karlalandsliðið misst af síðustu tveimur stórmótum.

„Þetta er að mínu mati fáránlegt," sagði De Boer við Guardian. „Ef það eru 500 milljónir að horfa á úrslitaleikinn á HM karla, enn 100 milljónir á úrslitaleik HM kvenna - það er munur. Það er ekki það sama."

„Auðvitað skal borga þeim það sem þær eiga skilið, og ekki minna, bara það sem þær eiga í raun og veru skilið. Ef kvennafótbolti er jafn-vinsæll og karlafótbolti, þá eiga þær að fá jafnmikið borgað. En það er ekki þannig. Af hverju eiga þær þá að fá sömu laun?"

„Mér finnst þetta fáránlegt og ég skil þetta ekki."

De Boer er núna að stýra liði í bandarísku liði í MLS-deildinni, Atlanta. Í Bandaríkjunum hefur umræðan um launamun kynjanna í fótbolta verið hvað háværust eftir magnaðan árangur bandaríska kvennalandsliðsins undanfarin ár. Bandaríska kvennalandsliðið vann HM í fjórða sinn í sumar, en fær samt minna borgað en karlalandsliðið, sem komst ekki inn á síðasta HM.

Bandarísku landsliðskonurnar standa í málaferlum við knattspyrnusambandið út af launamun landsliðanna.

Kvennafótbolti er á uppleið í vinsældum og hafa mörg áhorfendamet fallið á síðustu misserum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner