fös 14. september 2018 13:30
Magnús Már Einarsson
Klopp ætlar ekki að hlusta á Neville - Vill ekki henda Meistaradeildinni
Mynd: Getty Images
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, segist að liðið ætli að leggja allt kapp í allar keppnir á tímabilinu og ekki komi til greina að detta snemma úr Meistaradeildinni til að ná að einbeita sér betur að ensku úrvalsdeildinni.

Gary Neville, sérfræðingur Sky, talaði um það í vikunni að Liverpool gæti hagnast á því að detta snemma úr Meistaradeildinni til að hafa Mohamed Salah, Sadio Mane og Roberto Firmino ferskari í leikjum.

„Ég veit að það erfitt að gera þetta en ef þeir gætu farið inn í febrúar, mars og apríl án Meistaradeildarinnar þá tel ég að þeir ættu alvöru séns á að vinna deildina ef þeir myndu vera í fríi í miðri viku," sagði Neville.

Klopp blés á þessar hugmyndir á fréttamannafundi í dag fyrir leikinn gegn Tottenham á morgun.

„Hvernig virkar það? Að spila ekki í Meistaradeildinni? Hvernig undirbýrð þú þig fyrir leik án þess að einbeita þér að honum. Lætur þú krakkana spila í Meistaradeildinni. Það væri fyndið. Við þurfum að spila fótbolta," sagði Klopp.

„Margir horfa á leiki okkar í Meistaradeildinni og það er vinnan okkar að gera eins vel og við getum í þessum leikjum."

„Við sjáum hvað gerist. Ég veit ekki hvað það þýðir að einbeita sér að einni keppni. Það er bara hægt ef þú ert næstum dottinn út úr keppni og það er lítið eftir af tímabilinu. Í fyrra gátum við ekki einbeita okkur að einni keppni því við þurftum að reyna að komast í Meistaradeildina."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner