Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   mið 14. nóvember 2018 22:15
Brynjar Ingi Erluson
Heiðarlegur Kante vildi ekki fela fjármuni sína á aflandseyjum
N'Golo Kante er strangheiðarlegur náungi
N'Golo Kante er strangheiðarlegur náungi
Mynd: FIFA
Franski miðjumaðurinn N'Golo Kante sem er á mála hjá Chelsea er líklega einn heiðarlegasti knattspyrnumaðurinn í boltanum en hann hafnaði þeirri tillögu að fela fjármuni sína í skattaskjóli er hann gekk til liðs við félagið.

Þessi 27 ára gamli snillingur gekk til liðs við Chelsea frá Leicester sumarið 2016 eftir að hafa orðið Englandsmeistari með Leicester en ári síðar fagnaði hann titlinum með Chelsea.

Football Leaks hefur verið að fletta ofan af knattspyrnumönnum sem hafa selt ímyndaréttinn sinn og geymt fjármuni sýna á aflandseyjum til þess að forðast það að borga skatta.

Kante er þó ekki einn af þeim. Þegar hann gekk til liðs við Chelsea var honum boðið að geyma hluta af fjármunum sínum á aflandseyjum en hann hafnaði boðinu.

„Það er ekki hægt að hreyfa við Kante. Hann vill bara eðlileg laun," stóð í samskiptum hjá endurskoðanda Kante við Chelsea.

Franska vefsíðan Mediapart heldur því fram að 20 prósent af launum Kante er bundið við ímyndarrétt hans en hann þénar 6 milljónir punda á ári.

Hann neitaði að fá þann hluta borgaðan fyrr en það væri búið að semja við fyrirtæki á Bretlandseyjum. Þeir samningar náðust í febrúar á þessu ári.

„Eftir að hafa lesið margar greinar um ímyndarrétt leikmanna og rannsókn skattayfirvalda þá hafði Kante verulega áhyggjur af því að hann myndi lenda í vandræðum. Hann vildi því ekki taka áhættuna," stóð ennfremur í samskiptunum.

Blaise Matuidi, liðsfélagi hans í franska landsliðinu, ræddi við fjölmiðla um þessa ákvörðun Kante.

„Hann gerir allt mjög vel og eftir bókinni en hann svindlar stundum í spilum," sagði Matuidi og grínaðist.
Athugasemdir
banner
banner