mið 14. nóvember 2018 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Mælir með að ítalski ofurbikarinn verði spilaður í Jeddah
Mynd: Getty Images
Sendiherra Ítalíu í Riyadh, höfuðborg Sádí-Arabíu, hefur mælt með því að ítalska knattspyrnusambandið hætti ekki við að halda úrslitaleik ítalska ofurbikarsins í Jeddah.

Juventus mætir Milan í ítalska ofurbikarnum og á leikurinn að fara fram 16. janúar.

Margir hafa kallað eftir því að leikurinn verði færður frá Sádí-Arabíu eftir að Jamal Khashoggi, fréttamaður Washington Post, var myrtur í sendiráði Sádí-Araba í Istanbúl í Tyrklandi.

Sendiherra Ítalíu heitir Luca Ferrari og ræddi hann við forseta ítalska knattspyrnusambandsins um leikinn. Hann mælti sterklega með því að ekki yrði hætt við að spila leikinn í Sádí-Arabíu til að halda vinsamlegum samskiptum á milli landanna.

Í ítalska ofurbikarnum mætast tvö bestu lið Ítalíu. Liðið sem vann deildina annars vegar og liðið sem vann bikarinn hins vegar.

Juventus vann báða titla á síðasta tímabili og mætir því AC Milan í úrslitaleiknum. Milan endaði í öðru sæti í bikarnum og fær þátttökurétt framyfir Napoli sem endaði í öðru sæti deildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner