sun 14. nóvember 2021 21:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Arnar: Ég veit hvar þetta endar
Icelandair
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hefur trú á því að Ísland geti orðið mjög gott lið aftur.
Hefur trú á því að Ísland geti orðið mjög gott lið aftur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland er búið að ljúka leik í undankeppni HM 2022. Það gerðist margt á meðan undankeppninni stóð og liðið breyttist mikið. Undir lok undankeppninnar var okkar lið orðið það yngsta í Evrópuhluta keppninnar.

Ísland endaði í fimmta sæti af sex liðum með níu stig úr tíu leikjum. Arnar Þór Viðarsson var spurður að því á fréttamannafundi eftir tap gegn Norður-Makedóníu hvað tæki núna og hvernig framhaldið liti út fyrir honum.

„Það sem tekur við er einfaldlega að halda áfram að greina árið. Við erum búnir að vera að því undanfarnar vikur. Eftir gluggann í október fórum við í mjög ítarlega greiningarvinnu - með gögn, tölfræði, hlaupatölur og vídjó úr leikjum. Við munum taka þessa leiki inn í þá greiningu og gera upp árið," sagði Arnar.

„Það sem situr eftir akkúrat núna er að það eru allir svekktir að hafa ekki náð að ráðast á annað sætið í þessum riðli. Ég geri mér fulla grein fyrir því af hverju það er. Ég held að fólkið heima viti það líka - hvað hefur gerst."

„Ég veit á hvaða stað við erum núna og ég er stoltur af þeim skrefum sem þetta lið hefur tekið síðan í lok ágúst. Erfiðir leikir eins og í kvöld, og eins og í Rúmeníu, við verðum betur til þess búnir að ná í góð úrslit úr svona leikjum innan skamms. Ungir strákar eru að fá svona leiki og það er mikilvægt veganesti."

„Ég held ótrauður áfram, ég veit hvar þetta endar."

Hvar endar þetta?

„Ég er fullviss um að íslenska landsliðið verði mjög gott aftur. Hvort sem það er erfitt ár, tvö ár eða fimm ár... það má ekki gleyma því að við eigum marga leikmenn inn fyrir árið 2022. Það eru margir reyndir og frábærir leikmenn sem hafa verið frá allt árið. Við eigum leikmenn inni. Við munum verða mjög gott landslið aftur, það þarf að vinna þá vinnu og koma sér þangað. Það gerist ekki bara á einni nóttu," sagði Arnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner