sun 14. nóvember 2021 23:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sakar Roy Keane um einelti í garð Maguire
Roy Keane liggur ekki á skoðunum sínum.
Roy Keane liggur ekki á skoðunum sínum.
Mynd: Getty Images
Gabriel Agbonlahor, fyrrum leikmaður Aston Villa, hefur sakað Roy Keane, fyrrum fyrirliða Manchester United, um einelti í kjölfarið á gagnrýni hans á Harry Maguire.

Keane hefur látið Maguire heyra það hvað eftir annað síðustu vikur. Hann hefur verið lítt skemmt yfir frammistöðu varnarmannsins með Man Utd.

Maguire skoraði fyrir enska landsliðið í sigri á Albaníu síðasta föstudagskvöld. Hann fagnaði með því að halda fyrir eyrun. Það virkaði eins og hann væri að gefa lítið fyrir gagnrýnisraddir og lét Keane hann heyra það - ekki í fyrsta sinn.

„Að renna sér á hnjánum og halda fyrir eyrun gegn Albaníu, í alvöru? Ég hefði farið í slag við hann ef ég væri á vellinum. Hann heldur að hann sé að þagga niður í gagnrýnisröddum en mér finnst þetta vandræðalegt. Hann hefur verið til skammar síðustu mánuði hjá Man Utd," sagði Keane.

Agbonlahor telur að Keane sé að ganga of langt gagnvart Maguire. Hann tjáði sig um málið á Talksport.

„Mér finnst Keane vera eineltisseggur í þessu tilviki. Mér finnst hann vera að leggja hann í einelti því Harry Maguire hefur verið undir mikilli pressu vegna slakrar frammistöðu sinnar fyrir Man Utd."

„Ef ég væri að spila illa og ég myndi skora mark, þá myndi ég fagna alveg eins til þess að sýna gagnrýnendum að 'ég ætli að reyna að standa mig vel' og hann gerði það."

Agbonlahor segir að það sé mikilvægt að styðja við bakið á Maguire og hrósa líka, því pressan á honum sé gríðarlega mikil.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner