Þýsku liðin Bochum og Union Berlin gengu af velli þegar liðin mættust í Bundesligunni í dag. Þegar þau sneru aftur á völlinn létu þau klukkuna ganga út leiktímann án þess að reyna að sækja að marki andstæðingsins.
Patrick Drewes markvörður Bochum fékk aðskotahlut í höfuðið úr áhorfendastúkunni í Berlín, líklega kveikjara. Hann lagðist niður og þurfti aðhlynningu. Atvikið átti sér stað í uppbótartíma en dómarinn stöðvaði leik og benti liðunum á að ganga af velli.
Næstum hálftíma síðar hélt leikurinn áfram og Philipp Hofmann kom í markið í stað Drewes sem treysti sér ekki til að spila áfram. Hofmann er reyndar framherji en þar sem Bochum var búið með skiptingarnar sínar mátti ekki skipta varamarkverðinum inná.
Þær þrjár mínútur sem eftir lifði voru bæði lið sammála um að reyna ekki að sækja á mark hvors annars. Þau spiluðu boltanum sín á milli, gengu um og spjölluðu við hvorn annan meðan beðið var eftir því að dómarinn flautaði af. Lokastaðan varð því 1 - 1.
„Þjálfarinn okkar og þjálfarinn þeirra ræddu málin og þeir sögðu okkur að fara þarna út og láta þennan leik ganga til enda, og við gerðum það," sagði Hofmann við Sky. Hann sagðist ekki vita stöðuna á Drewes en vissi að kveikjarinn var ekki það eina sem var hent í áttina að honum.
„Þetta er óásættanlegt. Sama hversu fast þetta fór í hann, hvort honum blæddi eða ekki, þetta er bara ekki viðeigandi," sagði hann.
Athugasemdir