þri 15. janúar 2019 18:37
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Enn bíður Hamren eftir fyrsta sigrinum
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Ísland 0 - 0 Eistland
Lestu nánar um leikinn

Erik Hamren þarf að bíða eitthvað lengur eftir fyrsta sigrinum sem landsliðsþjálfari Íslands. Íslenska landsliðið mætti Eistlandi í síðari æfingaleik sínum í Katar í dag.

Færin voru af skornum skammti. Ísland fékk mjög gott færi í byrjun seinni hálfleiks þegar Aron Elís Þrándarson var einn og óvaldaður á teignum eftir fyrigjöf Samúels Kára Friðjónssonar. Aron skallaði hins vegar fram hjá.

Eistar áttu skot í stöngina þegar stundarfjórðungur var eftir og Ísland gerði tilkall til að skora á lokamínútunum en inn vildi boltinn ekki og lokatölur því 0-0.

„Dómarinn frá Katar flautar til leiksloka. Þessi leikur verður ekki gefinn út á DVD um næstu jól, færin fá og rólegt yfir þessu," sagði Magnús Már Einarsson í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.

Ísland hefur ekki unnið fótboltaleik síðan gegn Indónesíu í janúar síðastliðnum. Síðasti sigur þar sem við voru með okkar sterkasta lið kom gegn Kosóvó þegar Ísland tryggði sig inn á HM í Rússlandi. Sá leikur var í október.

Þrír leikmenn léku sinn fyrsta landsleik fyrir Ísland í dag, en það voru Davíð Kristján Ólafsson, Alex Þór Hauksson og Willum Þór Willumsson.
Athugasemdir
banner
banner