Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 15. febrúar 2019 12:00
Magnús Már Einarsson
Hemmi Hreiðars um vandræði Portsmouth: Þetta var sorglegt
Hermann fagnar marki í leik með Portsmouth á sínum tíma.  Hann upplifði ýmislegt á ferli sínum með Portsmouth.
Hermann fagnar marki í leik með Portsmouth á sínum tíma. Hann upplifði ýmislegt á ferli sínum með Portsmouth.
Mynd: Getty Images
Hermann Hreiðarsson spilaði með Portsmouth á árunum 2007-2012 en á þessum tíma gekk ýmislegt á hjá félaginu. Porstmouth vann enska bikarinn 2008 og fór með öfluga sveit í Evrópudeildina í kjölfarið.

Síðan fór að halla undan fæti og á endanum féll liðið úr ensku úrvalsdeildinni 2010 eftir mikil fjárhagsvandræði. Þar stoppaði niðursveiflan ekki og Portsmouth fór alla leið niður í ensku D-deildina á endanum. Harry Redknapp var stjóri Portsmouth þegar liðið varð enskur bikarmeistari en hann fór til Tottenham í október 2008.

„Um leið og Harry fer þá átta menn sig á því að það eru hörmungar framundan. Það var eitthvað í gangi bakvið tjöldin. Þetta voru fyrstu merki þess að eitthvað slæmt væri í vændum," sagði Hermann þegar hann rifjar upp erfiðu tímana hjá Portsmouth.

„Þetta var rosalega leiðinlegur tími fyrir margar sakir. Þetta leit allt fáránlega vel út og maður kynntist fullt af fólki hjá félaginu. Þegar fór að halla undan fæti var súrt að sjá á eftir fullt af fólki sem hafði unnið fyrir félagið í fjölda ára."

„Það var sorglegt. Við leikmenn vildum leggja okkar að mörkum og vorum tilbúnir að borga laun fyrir hina og þessa starfsmenn en við máttum það ekki einu sinni því það er ólöglegt. Við fórum síðan aðrar leiðir í því."


Stuðningsmenn Portsmouth keyptu félagið í apríl 2013 og fyrsti leikurinn í kjölfarið var æfingaleikur gegn ÍBV. Hermann var þá spilandi þjálfari ÍBV og hann var með sína menn í æfingaferð á Englandi.

Portsmouth féll niður í ensku D-deildina vorið 2013 en stuðningsmenn liðsins gáfust ekki upp og árið 2014 höfðu allar skuldir félagsins verið borgaðar. Portsmouth vann ensku D-deildina 2016/2017 og í dag er liðið í 3. sæti í ensku C-deildinni og í baráttu um að fara aftur upp í Championship deildina. Hermann hefur sjálfur oft kíkt í heimsókn til Portsmouth undanfarin ár.

„Ég er búinn að fara þangað margoft og á marga góða vini í Portsmouth. Ég hef haldið frábæru sambandi þar," sagði Hermann í Miðjunni.

Hlustaðu á Hemma í Miðjunni hér eða í Podcast forritum
Athugasemdir
banner
banner
banner