Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 15. febrúar 2019 13:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
U21 sem fór á EM 2011 - Hvar eru þeir í dag?
Byrjunarliðið í fyrsta leik EM á móti Hvíta-Rússlandi.
Byrjunarliðið í fyrsta leik EM á móti Hvíta-Rússlandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Úr leiknum gegn Þýskalandi í Kaplakrika. Kolbeinn Sigþórsson og Mats Hummels.
Úr leiknum gegn Þýskalandi í Kaplakrika. Kolbeinn Sigþórsson og Mats Hummels.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Arnar Darri Pétursson.
Arnar Darri Pétursson.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Haraldur Björnsson.
Haraldur Björnsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Pétursson.
Óskar Pétursson.
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Skúli Jón Friðgeirsson.
Skúli Jón Friðgeirsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elfar Freyr Helgason.
Elfar Freyr Helgason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hjörtur Logi Valgarðsson.
Hjörtur Logi Valgarðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eggert Gunnþór Jónsson.
Eggert Gunnþór Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Hólmar Örn Eyjólfsson.
Hólmar Örn Eyjólfsson.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Jón Guðni Fjóluson.
Jón Guðni Fjóluson.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Þórarinn Ingi Valdimarsson.
Þórarinn Ingi Valdimarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Bjarnason.
Birkir Bjarnason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarni Þór Viðarsson.
Bjarni Þór Viðarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andrés Már Jóhannesson.
Andrés Már Jóhannesson.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Guðmundur Kristjánsson.
Guðmundur Kristjánsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson.
Mynd: Getty Images
Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Almarr Ormarsson.
Almarr Ormarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason.
Mynd: Getty Images
Björn Bergmann Sigurðarson.
Björn Bergmann Sigurðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Smárason.
Arnór Smárason.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Rúrik Gíslason.
Rúrik Gíslason.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Sumarið 2011 var eftirminnilegt fótboltasumar fyrir íslenska knattspyrnu. Það sumar fór íslenska U21 drengjalandsliðið á stórmót; Evrópumótið. Mótið var haldið í Danmörku, en þetta var stór áfangi þar sem Ísland hafði aldrei komist á stórmót í þessum aldursflokki, hvað þá á stórmót í A-landsliðum karla.

Það var hægara sagt en gert að komast á mótið. Ísland var í erfiðum riðli í undankeppninni, með sterkum þjóðum á borð við Þýskaland og Tékkland. Auk þess voru Norður-Írland og San Marínó og í riðlinum.

Ísland byrjaði á tapi hér heima gegn Tékklandi en vann svo fjóra leiki í röð. Tvo gegn San Marínó og tvo gegn Norður-Írlandi. Ísland gerði síðan jafntefli ytra gegn Þýskalandi. Næsti leikur var gegn Þýskalandi á heimavelli. Undirritaður var á þeim og man vel eftir því. Fyrir framan fullan Kaplakrikavöll spiluðu þessir strákar magnaðan fótboltaleik sem endaði með 4-1 sigri Íslands. Þýskaland var ríkjandi Evrópumeistari á þessum tíma, en í liði Þjóðverja í þessum leik voru leikmenn eins og Mats Hummels, Marcel Schmelzer og tvíburabræðurnir Lars og Sven Bender.

Smelltu hér til að lesa umfjöllun Fótbolta.net um leikinn.

Eftir þennan magnaða sigur á Þýskalandi spilaði Ísland við Tékkland í lokaleiknum en sá leikur fór 3-1 fyrir Tékklandi. Það þýddi að Ísland fór í umspil um sæti á Evrópumótinu.

Í umspilinu var Ísland dregið gegn Skotlandi. Fyrir leikina tók KSÍ þá umdeildu ákvörðun að veita U21 landsliðinu forgang yfir A-landsliðið í leikmannavali. Þetta var ákvörðun sem Ólafur Jóhannesson, þáverandi landsliðsþjálfari, var ekki sáttur með.

Ísland vann 2-1 sigur á Laugardalsvelli í fyrri leiknum þar sem Almarr Ormarsson skoraði sigurmarkið á 78. mínútu. Leikurinn úti í Skotlandi fór fram í Edinborg og var hann taugatrekkjandi. Ísland komst yfir þegar Gylfi Þór Sigurðsson skoraði á 74. mínútu, en úr miðjunni jafnaði Skotland með marki yfir allan völlinn. Boltinn fór yfir Arnar Darra í markinu. Staðan 1-1 og allt gat gerst.

En á 80. mínútu skoraði Gylfi Þór, þá nýgenginn í raðir Hoffenheim í Þýskalandi, aftur og var það stórkostlegt mark eins og sjá má hér að neðan.

Ísland vann einvígið samanlagt 4-2 og var því komið á EM U21 landsliða í Danmörku. Dregið var í riðla þann 9. nóvember 2010 í Álaborg og þar var Ísland dregið í riðil með heimamönnum í Danmörku, Sviss og Hvíta-Rússlandi.

Hársbreidd frá því að komast áfram
Ísland hóf leik gegn Hvíta-Rússlandi í Árósum en sá leikur tapaðist því miður 2-0. Það var ljóst að róðurinn yrði erfiður eftir þetta tap ekki síst í ljósi þess að Aron Einar Gunnarsson fékk að líta rauða spjaldið í leiknum og var í banni í næsta leik.

Smelltu hér til að lesa umfjöllun Fótbolta.net um leikinn.

Ísland mætti sterku liði í Sviss í næsta leik og átti ekki möguleika. Lokaniðurstaðan var aftur 2-0 tap, en í þetta skiptið voru úrslitin mikið sanngjarnari. Sviss með Granit Xhaka og Xherdan Shaqiri í aðalhlutverkum valtaði yfir vængbrotna Íslendinga.

Smelltu hér til að lesa umfjöllun Fótbolta.net um leikinn.

Lokaleikur í riðlinum var gegn Danmörku og þar sýndu íslensku strákarnir geggjaða frammistöðu. Loksins sýndi íslenska liðið sitt rétta andlit og gátu strákarnir gengið stolti frá borði eftir þennan leik. Ísland vann 3-1 þar sem Kolbeinn SIgþórsson, Birkir Bjarnason og Hjörtur Logi Valgarðsson skoruðu mörkin gegn Christian Eriksen og félögum. Ísland komst ekki áfram, en það munaði sáralitlu; 4-1 sigur hefði dugað og líka 3-0 sigur.

Smelltu hér til að lesa umfjöllun Fótbolta.net um leikinn.

Eftir mótið fylltust Íslendingar bjartsýni fyrir framtíðina. Magnús Már Einarsson, ritstjóri Fótbolta.net, skrifaði pistil eftir Evrópumótið sem bar titilinn Ísland á að stefna á EM 2016.

„Miðað við árangur íslenska landsliðsins undanfarin ár má segja að það sé bjartsýni að kalla eftir því að landsliðið komist á stórmót á næstu árum. Efniviðurinn er hins vegar klárlega til staðar og ef allir leggjast á eitt sé ég ekkert því til fyrirstöðu að Ísland verði á meðal þáttökuþjóða á EM í Frakklandi eftir fimm ár," skrifaði Magnús Már.

Svo fór að EM 2016 í Frakklandi var fyrsta stórmótið sem A-landslið karla komst á og fórum við alla leið í 8-liða úrslit. Eftirminnilega. Ísland komst svo á HM í Rússlandi í fyrra og nú er stefnan sett á EM alls staðar 2020.

Þetta Evrópumót í Danmörku lagði grunninn að því sem koma skyldi.

Hvað eru þeir í dag?
Það var 23 manna hópur sem fór á EM U21 landsliða 2011. Nokkrir af þessum leikmönnum hafa orðið lykilmenn í A-landsliðinu og spilað stóran þátt í velgengni síðustu ára, en aðrir hafa ekki náð eins langt. Hér verður farið yfir hvað þessir 23 leikmenn eru að gera í dag og hvernig ferill þeirra hefur verið hingað til.

Markverðir:

Arnar Darri Pétursson - er hjá Þrótti R í Inkasso-deildinni
Arnar Darri er fæddur 16 mars 1991 og er því 28 ára. Hann fór 17 ára frá Stjörnunni til Lyn í Noregi. Hann spilaði 15 leiki fyrir Lyn, þar af fimm í norsku úrvalsdeildinni. Þegar Evrópumótið fór fram var hann á mála hjá SönderjyskE í Danmörku. Hann skrifaði undir tveggja ára samning við danska úrvalsdeildarfélagið 2010 eftir að Lyn varð gjaldþrota. Hann var varamarkvörður þar og síðar þriðji markvörður.

Árið 2012 sneri hann aftur heim í Stjörnuna og var þar varamarkvörður fyrir Ingvar Jónsson í tvö ár. Arnar fór á láni í Víkings Ólafsvík 2014 og var eftir það tímabil orðaður við Keflavík, ÍBV og ÍA. Hann var áfram í Stjörnunni en spilaði ekkert.

Fyrir tímabilið 2016 samdi hann við Þrótt og þar spilaði hann 12 leiki í Pepsi-deildinni sumarið 2016. Hann hefur verið aðalmarkvörður liðsins síðastliðnar tvær leiktíðir í Inkasso-deildinni.

Arnar Darri kom ekkert við sögu á Evrópumótinu.

Haraldur Björnsson - er hjá Stjörnunni í Pepsi-deildinni
Haraldur er fæddur 11. janúar 1989 og er því þrítugur að aldri. Haraldur er uppalinn í Val en fór ungur að árum til skoska félagsins Hearts. Hann komst nokkrum sinnum á bekkinn hjá aðalliðinu þar en kom aftur heim 2009 og fór þá aftur í Val.

Hann spilaði níu leiki með Val í Pepsi-deildinni 2009 en fór 2010 í Þrótt R. á láni í 1. deildina. Hann lék alla leiki fyrir Þrótt og var sumarið eftir aðalmarkvörður Vals sem hafnaði í 5. sæti Pepsi-deildarinnar. Haraldur var orðaður við ÍBV eftir tímabilið en hann endaði hjá Sarpsborg í Noregi.

Hann lék mikið fyrir Sarpsborg áður en hann meiddist. Eftir meiðslin var hann lánaður til Fredrikstad og Strømmen í norsku 1. deildinni. Hann var varamarkvörður hjá Östersund í Svíþjóð og Lilleström í Noregi frá 2014-2016, en fyrir tímabilið 2017 sneri hann heim til Íslands og gekk í raðir Stjörnunnar. Þar leikur hann enn í dag og er einn besti markvörður Pepsi-deildarinnar.

Haraldur lék alla þrjá leiki Íslands á EM og þótti einn besti leikmaður liðsins á mótinu.

Óskar Pétursson - lék sitt síðasta tímabil 2014
Óskar er fæddur 26. janúar 1989 og er því þrítugur. Óskar þótti mjög efnilegur og fór ungur að árum til Ipswich á Englandi. Hér má lesa stutt viðtal við Óskar er hann var 17 ára hjá Ipswich.

Hann meiddist og kom aftur í Grindavík árið 2007. Óskar var aðalmarkvörður Grindavíkur sumarið 2007 þrátt fyrir að vera aðeins 18 ára. Þess má geta að Grindavík fór upp í efstu deild það sumar. Óskar náði ekki að halda sæti sínu 2008, en var mættur aftur í rammann 2009 og hélt sæti sínu eftir það til ársins 2014. Það var hans síðasta tímabil áður en hann ákvað að leggja hanskana á hilluna og einbeita sér að öðru.

Óskar kom ekkert við sögu á Evrópumótinu.

Varnarmenn:

Skúli Jón Friðgeirsson - er hjá KR í Pepsi-deildinni
Skúli Jón er fæddur 30. júlí 1988 og er því þrítugur. Skúli lék sína fyrstu leiki í efstu deild á Íslandi með KR árið 2005. Hann vann allt sem hægt var að vinna með KR á Íslandi áður en hann hélt til Svíþjóðar og samdi við Elfsborg 2012.

Skúli varð sænskur meistari á sínu fyrsta tímabili með Elfsborg þar sem hann kom við sögu í fimm leikjum. Meiðsli settu strik í reikninginn hjá honum og kom hann ekkert við sögu árið 2013 hjá Elfsborg. Hann var lánaður til Gefle, sem var þá einnig í sænsku úrvalsdeildinni, 2014. Hann sneri heim í KR 2015. Þar spilar hann í dag og hefur verið lykilmaður undanfarin tímabil.

Skúli kom ekkert við sögu á Evrópumótinu.

Elfar Freyr Helgason - er hjá Breiðabliki í Pepsi-deildinni
Elfar Freyr er fæddur 29. júlí 1989 og er því 29 ára. Elfar Freyr byrjaði að spila með meistaraflokki Breiðabliks í efstu deild 2009 og var hann lykilmaður er Blikar urðu Íslandsmeistarar 2010. Um mitt sumar 2011 samdi Elfar við gríska félagið AEK Aþenu.

Hann spilaði með AEK í Evrópudeildinni, en kom ekki við sögu í grísku úrvalsdeildinni. Elfar var um stutt skeið hjá Stabæk í Noregi og hjá Randers í Danmörku en sneri aftur heim til Breiðabliks 2013. Elfar fór á láni til Horsens 2017, en sneri aftur til Blika í júlí það ár.

Hann og Damir Muminovic hafa myndað eitt sterkasta miðvarðarpar síðustu ára í Pepsi-deildinni.

Elfar kom ekkert við sögu á Evrópumótinu.

Hjörtur Logi Valgarðsson - er hjá FH í Pepsi-deildinni
Hjörtur Logi er fæddur 27. september 1988 og er því þrítugur. Hjörtur hóf að leika með meistaraflokki FH árið 2006 og var hann mikilvægur hlekkur í Íslandsmeistaraliði FH-inga 2008. Það sama var upp á teningunum ári síðar.

Vinstri bakvörðurinn gekk í raðir sænska félagsins IFK Göteborg árið 2011 og lék hann 46 leiki í sænsku úrvalsdeildinni áður en hann fór til Sogndal í Noregi 2014. Hann lék eitt tímabil þar áður en hann sneri aftur til Svíþjóðar og samdi við Örebro. Hann kom við sögu í 54 leikjum í sænsku úrvalsdeildinni með Örebro.

Hann sneri aftur heim í FH fyrir síðasta tímabil og spilaði 19 leiki er Fimleikafélagið hafnaði í fimmta sæti Pepsi-deildarinnar.

Hjörtur spilaði alla leiki Íslands á Evrópumótinu og skoraði hann í lokaleiknum gegn Danmörku.

Eggert Gunnþór Jónsson - er hjá SönderjyskE í Danmörku
Eggert Gunnþór er fæddur 18. ágúst 1988 og er því þrítugur. Hann var skráður sem varnarmaður í þennan hóp en leikur í dag yfirleitt sem miðjumaður. Eggert er uppalinn hjá Fjarðabyggð en fór ungur að árum erlendis og hefur ekki enn snúið aftur heim. Hann hefur komið víða við á ferlinum.

Fyrsta félag hans erlendis var Hearts í Skotlandi og lék hann þar til 2012. Þá fór hann til Englands og spilaði með Úlfunum og Charlton. Hann fór frá Englandi til Portúgals og samdi hann við Belenenses þar í landi. Meiðsli settu strik í reikninginn hjá honum þar og fór hann til Vestsjælland í Danmörku í janúar 2015, en stoppaði stutt þar.

Hann gekk í raðir Fleetwood í ensku C-deildinni um sumarið 2015 og var hann hjá Fleetwood til 2017. Hann var fenginn til danska úrvalsdeildarfélagsins SönderjyskE í byrjun árs 2017 og er enn að spila þar við góðan orðstír.

Eggert byrjaði alla leiki Íslands á Evrópumótinu.

Hólmar Örn Eyjólfsson - er hjá Levski Sofia í Búlgaríu
Hólmar Örn er fæddur 6. ágúst 1990 og er því 28 ára. Sem táningur spilaði Hólmar tvö tímabil í efstu deild á Íslandi með HK. Sumarið 2008 var hann keyptur til enska úrvalsdeildarfélagsins West Ham.

Hólmar náði ekki að brjóta sér leið inn í aðallið West Ham. Hann var lánaður til Cheltenham og belgíska félagsins Roeselare á meðan hann var hjá West Ham. Eftir að samningur hans við West Ham rann út, þá samdi hann við Bochum í Þýskalandi og fetaði þar með í fótspor föður síns, Eyjólfs Sverrissonar - sem stýrði einmitt U21 landsliðinu á Evrópumótinu. Eyjólfur gerði það gott með Stuttgart og Hertha Berlín á sínum leikmannaferli.

Hólmar fór frá Bochum 2014 og samdi við norska stórliðið Rosenborg. Hann vann norsku úrvalsdeildina tvisvar og gekk svo í raðir Maccabi Haifa í Ísrael 2017. Að undanförnu hefur hann leikið með Levski Sofia í Búlgaríu, en er nú að ganga í gegnum erfið meiðsli.

Hólmar Örn byrjaði alla leiki Íslands á Evrópumótinu.

Jón Guðni Fjóluson - er hjá Krasnodar í Rússlandi
Jón Guðni er fæddur 10. apríl 1989 og er því 29 ára. Hann lék sína fyrstu leiki í efstu deild á Íslandi 2007 og sló hann í gegn með Fram áður en hann hélt erlendis 2011.

Hann samdi við Beerschot í Belgíu. Þar náði hann ekki að fóta sig almennilega. Hann samdi við sænska félagið Sundsvall 2012. Í Svíþjóð gekk betur og fór hann til Norrköping 2015. Hann var fyrsti leikmaðurinn sem Norrköping fékk eftir að félagið varð sænskur meistari 2015. Jón Guðni varð lykilmaður hjá Norrköping og í fyrra var hann keyptur til rússneska félagsins Krasnodar.

Jón Guðni byrjaði alla leiki Íslands á Evrópumótinu.

Þórarinn Ingi Valdimarsson - er hjá Stjörnunni í Pepsi-deildinni
Þórarinn Ingi er fæddur 23. apríl 1990 og er því 28 ára. Hann er uppalinn í Vestmannaeyjum og því steig hann sín fyrstu skref í meistaraflokki hjá ÍBV.

Þórarinn var lánaður til Sarpsborg í Noregi og var þar í eitt og hálft ár. Sarpsborg vildi kaupa Þórarin en náði ekki samkomulagi við ÍBV. Þórarinn spilaði seinni hluta sumars 2014 með ÍBV en fór tímabilið eftir það til FH. Þórarinn varð Íslandsmeistari með Fimleikafélaginu 2015 og 2016. Fyrir síðasta tímabil samdi þessi fjölhæfi leikmaður við Stjörnuna.

Þórarinn kom ekkert við sögu á Evrópumótinu.

Miðjumenn:
Aron Einar Gunnarsson - er hjá Cardiff í ensku úrvalsdeildinni
Aron Einar er fæddur 22. apríl 1989 og er því 29 ára. Akureyringinn þekkja allir Íslendingar enda er hann í dag fyrirliði íslenska A-landsliðsins, sem hefur farið á tvö stórmót í fótbolta.

Aron fór ungur að vekja athygli, bæði í handbolta og fótbolta. Hann valdi fótboltann. Hann fór ungur að árum til AZ Alkmaar í Hollandi. Það var góður skóli fyrir hann. Hann fór frá AZ árið 2008 til Coventry í Englandi. Hann lék með Coventry við góðan orðstír til 2011 er hann samdi við Cardiff þar sem hann er enn í dag. Aron er lykilmaður hjá Cardiff sem er að berjast fyrir lífi sínu í ensku úrvalsdeildinni.

Aron verður eflaust orðinn leikjahæsti landsliðsmaður Íslandssögunnar innan fárra ára.

Aron spilaði tvo af leikjum Íslands á Evrópumótinu. Hann var í banni gegn Sviss eftir að hafa fengið rautt spjald gegn Hvíta-Rússlandi.

Birkir Bjarnason - er hjá Aston Villa í ensku Championship-deildinni
Birkir er fæddur 27. maí 1988 og er því þrítugur. Birkir bjó á Akureyri fyrstu ár ævi sinnar, en flutti rétt fyrir aldamót til Noregs. Norðmenn reyndu að sannfæra hann um að spila fyrir norska landsliðið, en það kom aldrei til greina hjá Birki.

Birkir vakti fyrst athygli með Viking í Noregi. Hann fór þaðan árið 2012 og samdi við Standard Liège í Belgíu. Hann var þar um stutt skeið. Næst lá leiðin til Ítalíu þar sem hann spilaði með Pescara, Sampdoria og xvo Pescara aftur.

Hann spilaði með svissneska stórliðinu Basel frá 2015 til 2017 þar sem hann vann deildina þar í landi einu sinni. Aston Villa keypti Birki í janúar 2017. Þar er hann enn í dag.

Birkir skoraði fyrsta mark íslenska A-landsliðsins á stórmóti er hann jafnaði í 1-1 gegn Portúgal á Evrópumótinu í Frakklandi.

Birkir kom inn á sem varamaður í tveimur fyrstu leikjunum á Evrópumótinu og byrjaði síðasta leikinn gegn Danmörku þar sem hann var einn þriggja markaskorara íslenska liðsins.
 
Bjarni Þór Viðarsson - er hjá FH í Pepsi-deildinni
Bjarni er fæddur 5. mars 1988 og er því þrítugur. Miklar vonir voru bundnar við Bjarna á sínum tíma. Enska úrvalsdeildarfélagið Everton fékk hann til sín 2004 og var hann í kringum aðalliðið þar. Hann var lánaður til Bournemouth 2007. Í desember 2007 lék Bjarni sinn fyrsta leik fyrir Everton er hann kom inn á sem varamaður gegn AZ Alkmaar í UEFA-bikarnum.

Bjarni var lánaður til Twente í Hollandi í janúar 2008 og í kjölfarið keyptur til félagsins. Hann spilaði ekkert hjá Twente og var hann fenginn til belgíska félagsins Roeselare 2009. Hann skipti svo um félag 2010 er hann samdi við Mechelen, einnig í Belgíu.

Árið 2012 fór Bjarni til Silkeborg í Danmörku, en hann kom heim í FH fyrir tímabilið 2015. Hann spilaði flesta leiki er FH varð Íslandsmeistari 2015 og 2016. Meiðsli hafa verið að trufla hann að undanförnu og spilaði hann til að mynda ekkert á síðustu leiktíð.

Bjarni var fyrirliði Íslands á Evrópumótinu. Hann spilaði tvo af þremur leikjum liðsins á mótinu.

Andrés Már Jóhannesson - er hjá Fylki í Pepsi-deildinni
Andrés Már er fæddur 21. desember 1988 og er því þrítugur. Hann er mikill Fylkismaður og hefur hann ekki spilað fyrir neitt annað félag á Íslandi.

Hann var á mála hjá Haugesund í Noregi frá 2011 til 2014 en sneri eftir dvölina þar aftur heim í Fylki. Hann hefur spilað með Fylki síðan, en til marks um það hversu mikill Fylkismaður hann er þá fór hann með liðinu niður í Inkasso-deildina árið 2017 og hjálpaði hann Árbæjarliðinu að komast beint aftur í deild þeirra bestu.

Andrés Már kom ekkert við sögu á Evrópumótinu.

Guðmundur Kristjánsson - er hjá FH í Pepsi-deildinni
Guðmundur er fæddur 1. mars 1989 og er því 29 ára. Hann kom upp úr hinni sterku akademíu hjá Breiðablik og hóf hann að spila með meistaraflokki Kópavogsfélagins árið 2007. Hann var einn mikilvægasti hlekkurinn í Íslandsmeistaraliði Blika árið 2010.

Hann fór á láni til Start í Noregi 2012 og í kjölfarið samdi hann við félagið. Allan sinn feril í atvinnumennsku lék hann með Start, eða frá 2012 til 2017. Hann samdi við FH fyrir síðasta tímabil og var hann lykilmaður á sínu fyrsta tímabili hjá Hafnarfjarðarfélaginu.

Guðmundur lék einn leik á Evrópumótinu. Hann var í byrjunarliðinu í 2-0 tapinu gegn Sviss.
 
Gylfi Þór Sigurðson - er hjá Everton í ensku úrvalsdeildinni
Gylfi er fæddur 8. september 1989 og er 29 ára. Gylfi Þór var besti leikmaðurinn í þessu liði og sá sem hefur komist hvað lengst af þeim sem tóku þátt á mótinu með íslenska liðinu. Hann lék með FH og Breiðabliki í yngri flokkum en fór aðeins 16 ára til Reading á Englandi.

Hann lék sinn fyrsta leik fyrir Reading 2008 en var lánaður til Shrewsbury í D-deildinni á Englandi það sama tímabili. Snemma árs 2009 var hann svo lánaður í Crewe í C-deildinni, en Guðjón Þórðarson var þá stjóri Crewe. Hann stóð sig vel hjá Crewe en náði ekki að hjálpa liðinu að forðast fall í D-deild.

Gylfi fór að spila með aðalliði Reading tímabilið 2009-10. Hann skoraði meðal annars gegn Liverpool í FA-bikarnum úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Hann jafnaði í 1-1, en Reading vann 2-1 eftir framlengingu. Gylfi var valinn leikmaður tímabilsins hjá Reading og vakti athygli úrvalsdeildarfélaga á Englandi. Hann var hins vegar áfram í eitt tímabil hjá Reading, en gekk svo í raðir Hoffenheim í Þýskalandi.

Hann var inn og út úr liðinu hjá Hoffenheim, en var samt valinn leikmaður tímabilsins hjá stuðningsmönnum á sínu fyrsta tímabili hjá félaginu. Það segir sitt um gæði Gylfa. Gylfi var lánaður til Swansea í janúar 2012 og þar spilaði hann frábærlega. Í kjölfarið var hann keyptur Tottenham, en hann hafði líka verið orðaður við Liverpool.

Rétt eins og hjá Hoffenheim, þá náði Gylfi ekki að festa sig í sessi hjá Tottenham og var hann seldur til Swansea, þar sem hann hafði verið á láni áður fyrr, sumarið 2014. Aftur var hann frábær hjá Swansea og það varð til þess að Everton keypti hann sumarið 2017 fyrir rúmar 40 milljónir punda. Hann varð dýrastur í sögu Everton og er það enn. Gylfi er að eiga fínt tímabil með Everton eftir nokkuð erfitt fyrsta tímabil hjá félaginu.

Gylfi lék alla leiki Íslands á mótinu og átti hann eina stoðsendingu í lokaleiknum gegn Danmörku.

Jóhann Berg Guðmundsson - er hjá Burnley í ensku úrvalsdeildinni
Jóhann Berg er fæddur 27. október 1990 og er því 28 ára. Hann lék í unglingaliðum Chelsea og Fulham, en flutti aftur til Íslands 2008 og gekk í raðir Breiðabliks. Um leið og hann sneri heim byrjaði hann að spila með meistaraflokki Blika. Hann tók aðeins eitt tímabil hér heima. Hann spilaði alla leiki Breiðabliks í Landsbankadeildinni 2008 og var hann einn besti leikmaður deildarinnar.

AZ Alkmaar nældi í Jóa Berg eftir þetta góða tímabil hjá honum. Hann þurfti að bíða eftir fyrsta leiknum með aðalliði AZ, en hann kom tímabilið 2010/11. Hann spilaði stóra rullu eftir það.

Árið 2014 samdi Jóhann Berg við enska félagið Charlton. Þar stóð hann sig vel og var hann keyptur til enska úrvalsdeildarfélagsins Burnley 2016. Hann spilar enn hjá Burnley og er einn besti leikmaður liðsins.

Jóhann Berg byrjaði fyrsta og síðasta leik Íslands á Evrópumótinu.

Almarr Ormarsson - er hjá KA í Pepsi-deildinni
Almarr er fæddur 25. febrúar 1988 og er þrítugur. Hann er eini leikmaðurinn úr hópnum sem fór á Evrópumótið, sem hefur aldrei samið hjá félagi erlendis. Almarr er uppalinn hjá KA, en átti frábæran tíma hjá Fram frá 2008 til 2013.

KR samdi við hann fyrir tímabilið 2014 og var hann hjá Vesturbæjarstórveldinu í tvö tímabil. Hann samdi síðan við KA og var þar í tvö tímabil.

Hann var í fyrra ljósasti punkturinn í liði Fjölnis sem féll úr Pepsi-deildinni. Hann samdi nýverið aftur við KA og mun leika með Akureyrarfélaginu næsta sumar.

Almarr kom ekkert við sögu á Evrópumótinu.

Framherjar:
Alfreð Finnbogason - er hjá Augsburg í þýsku úrvalsdeildinni
Alfreð er fæddur 1. febrúar 1989 og er því 29 ára. Hann hefur komið víða við. Alfreð er uppalinn hjá Breiðabliki. Hann skoraði 14 mörk í 21 leik er Blikar urðu Íslandsmeistarar 2010. Eftir það frábæra tímabil fór hann út og samdi við Lokeren í Belgíu.

Hann náði sér ekki almennilega á strik hjá Lokeren og var lánaður til Helsingborg í Svíþjóð 2012. Hjá Helsingborg var hann frábær og skoraði 12 mörk í 17 leikjum í sænsku úrvalsdeildinni. Heerenveen í Hollandi tók áhættu á honum eftir flotta dvöl hans hjá Helsingborg og það margborgaði sig. Alfreð var magnaður með Herenveen og raðaði inn mörkunum í hollensku úrvalsdeildinni.

Real Sociedad á Spáni keypti Alfreð 2014, en þar náði hann sér því miður ekki á strik. Hann náði sér heldur ekki á strik á láni hjá gríska félaginu Olympiakos. Snemma árs 2016 var hann lánaður til Augsburg og þar átti hann eftir að finna taktinn.

Alfreð er í dag einn af öflugustu markaskorurum þýsku Bundesligunnar.

Á Evrópumótinu kom Alfreð inn á sem varamaður gegn Hvíta-Rússlandi og byrjaði svo gegn Sviss.

Björn Bergmann Sigurðarson - er hjá Rostov í Rússlandi
Björn Bergmann er fæddur 27. febrúar 1991 og er því 27 ára. Björn er af Skaganum eins og margir aðrir frábærir fótboltamenn. Björn hóf ungur að spila í efstu deild á Íslandi. Hann var orðaður við stórlið á borð við Manchester United og Lilleström, en eftir tvö tímabil í efstu deild samdi hann við Lilleström í Noregi.

Hann byrjaði fjórða tímabil sitt hjá Lilleström af miklum krafti og var eftir það keyptur til Wolves á Englandi. Hann spilaði mikið á sínu fyrsta tímabili þar, en minna eftir það. Hann var lánaður til Molde í Noregi og síðar meir til FC Kaupmannahöfn.

Í júlí 2016 fór hann til Molde á frjálsri sölu. Þar átti hann góðan tíma og í janúar á síðasta ári var hann keyptur til Íslendingafélagsins Rostov í Rússlandi.

Björn kom inn á sem varamaður gegn Sviss og Danmörku á Evrópumótinu.

Kolbeinn Sigþórsson - er hjá Nantes í Frakklandi
Kolbeinn er fæddur 14. mars 1990 og er því 28 ára. Kolbeinn er næst markahæsti leikmaður í sögu íslenska landsliðsins með 23 mörk í 48 landsleikjum. Kolbeinn þótti strax mikið efni og spilaði hann fyrstu leiki sína með meistaraflokki HK 2006. Hann var orðaður við stórlið á borð við Arsenal og Real Madrid, en fór til AZ Alkmaar í Hollandi.

Hann átti eftir að spila eitt tímabil með aðalliði AZ. Á því tímabili skoraði hann 15 mörk í 32 leikjum í hollensku úrvalsdeildinni. Hann var keyptur til stórliðsins Ajax eftir tímabilið.

Hann fór til Nantes í Frakklandi 2015, en þar er hann í kuldanum í dag og útlitið er ekki gott. Meiðsli hafa mikið truflað Kolbein á undanförnum árum.

Kolbeinn spilaði alla leiki Íslands á Evrópumótinu og skoraði hann í lokaleiknum gegn Danmörku.

Arnór Smárason - er hjá Lilleström í Noregi
Arnór er fæddur 7. september 1988 og er þrítugur. Hann ólst upp á Skaganum, en fór til Heerenveen í Hollandi 2004. Hann vann sig upp í aðalliðið hjá Heerenveen og spilaði 25 leiki fyrir félagið í hollensku úrvalsdeildinni. Í þessum 25 leikjum skoraði hann fimm mörk.

Arnór fór frá Hollandi til Danmerkur. Þar samdi hann við Esbjerg. Hann var hjá Esbjerg í þrjú tímabil. Sumarið 2013 gekk hann í raðir Helsingborg í Svíþjóð, en á tíma sínum hjá Helsingborg var hann meðal annars lánaður til Torpedo Moskvu í Rússlandi.

Arnór samdi við Hammarby í Svíþjóð undir lok árs 2015 og var þar allt þar til á síðasta ári þegar hann samdi við Lilleström í Noregi. Hann framlengdi nýverið við Lilleström.

Arnór byrjaði gegn Hvíta-Rússlandi og kom inn á sem varamaður gegn Danmörku á Evrópumótinu.

Rúrik Gíslason er hjá Sandhausen í þýsku B-deildinni
Rúrik er fæddur 25. febrúar 1988 og er því þrítugur. Rúrik er uppalinn í HK. Hann var um stutt skeið í unglingaliðum Anderlecht í Belgíu, en sneri aftur til HK 2005. Hann spilaði 12 leiki með HK í 1. deildinni 2005 og vakti mikla athygli með frammistöðu sinni.

Hann fór til Charlton í lok ágúst 2005. Hann var nokkrum sinnum í hóp hjá aðalliðinu, en fékk ekki að spreyta sig. Rúrik samdi við Viborg í Danmörku 2007.

Hann átti góðu gengi að fagna í Danmörku. Hann fékk félagaskipti yfir til OB árið 2009 og 2012 samdi hann við stærsta félagið í Danmörku, FC Kaupmannahöfn. Undanfarin ár hefur Rúrik leikið í þýsku B-deildinni. Fyrst var hann hjá Nürnberg, en núna er hann hjá Sandhausen.

Rúrik fór með Íslandi á HM og öðlaðist hann í kjölfarið mikilla vinsælda á samfélagsmiðlinum Instagram.

Rúrik lék alla leiki Íslands á Evrópumótinu og var hann með fyrirliðabandið í lokaleiknum.



Eins og áður kemur fram hafa nokkrir af þeim leikmönnum sem spiluðu í þessu U21 liði spilað stórt hlutverk í velgengni A-landsliðsins. Hér má sjá hvaða leikmenn úr liðinu fóru með á stórmótin og hversu marga A-landsleiki hver og einn leikmaður úr liðinu hefur leikið.

Sex af þeim sem fóru á EM U21 árið 2011 fóru á EM 2016 (Alfreð, Aron Einar, Gylfi, Jóhann Berg og Kolbeinn).

Sjö af þeim sem fóru á EM U21 árið 2011 fóru á HM 2018 (Alfreð, Aron Einar, Gylfi, Hólmar Örn, Jóhann Berg, Rúrik).

A-landsleikir hjá þeim sem fóru á EM U21:
Aron Einar Gunnarsson 81 (2 mörk)
Birkir Bjarnason 74 (10 mörk)
Jóhann Berg Guðmundsson 71 (7 mörk)
Gylfi Þór Sigurðsson 64 (20 mörk)
Rúrik Gíslason 53 (3 mörk)
Alfreð Finnbogason 52 (15 mörk)
Kolbeinn Sigþórsson 48 (23 mörk)
Arnór Smárason 26 (3 mörk)
Eggert Gunnþór Jónsson 21
Björn Bergmann Sigurðarson 17 (1 mark)
Jón Guðni Fjóluson 15 (1 mark)
Hólmar Örn Eyjólfsson 12 (1 mark)
Hjörtur Logi Valgarðsson 10
Guðmundur Kristjánsson 6
Skúli Jón Friðgeirsson 4
Þórarinn Ingi Valdimarsson 4
Andrés Már Jóhannesson 1
Bjarni Þór Viðarsson 1
Elfar Freyr Helgason 1
Haraldur Björnsson 1
Almarr Ormarsson 0
Arnar Darri Pétursson 0
Óskar Pétursson 0
Athugasemdir
banner
banner
banner