mán 15. mars 2021 10:37
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Daníel Snorri tvífótbrotnaði og fór úr ökklalið
Daníel Snorri í leiknum gegn Víði.
Daníel Snorri í leiknum gegn Víði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Daníel Snorri Guðlaugsson, miðjumaður Hauka, verður frá næstu mánuðina eftir að hafa tvífótbrotnað og farið úr ökklalið í leik gegn Víði í Lengjubikarnum á dögunum.

Daníel varð fyrir tæklingu í leiknum og þurfti að bera hann af velli.

Hann þurfti að gangast undir aðgerð þar sem hann fékk plötu og sex skrúfur í fótinn.

Ekki er vitað á þessari stundu hvort miðjumaðurinn öflugi komi til með að spila á tímabilinu.

„Saumarnir verða teknir úr í enda vikunnar og ég fæ að vita meira þá. Ég þurfti að fara í aðgerð; fékk plötu og 6 skrúfur í fótinn en þeir töluðu um að ég verði vonandi farinn að skokka eftir þrjá mánuði," sagði Daníel Snorri við Fótbolta.net.

Daníel Snorri, sem er 25 ára, gekk aftur í raðir uppeldisfélags síns, Hauka, undir lok síðasta árs. Hann spilaði með Víkingi Ólafsvík í Lengjudeildinni á síðustu leiktíð.

Haukar höfnuðu í fimmta sæti 2. deildar síðasta sumar.
Athugasemdir
banner
banner