mið 15. maí 2019 20:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Blaðamaður BBC segir það 50/50 að United fái Sancho
Jadon Sancho. Hann er aðeins 19 ára.
Jadon Sancho. Hann er aðeins 19 ára.
Mynd: Getty Images
Sancho í leik með enska landsliðinu.
Sancho í leik með enska landsliðinu.
Mynd: Getty Images
David Ornstein, blaðamaður BBC, telur að það séu helmingslíkur á því að Manchester United takist að klófesta Jadon Sancho frá Borussia Dortmund í sumar.

Sancho hefur slegið í gegn hjá Dortmund og í kjölfarið verið sterklega orðaður við Manchester United.

Sancho er 19 ára og kom upp í gegnum akademíuna hjá Manchester City áður en hann fór til Dortmund í leit að meiri spiltíma. Hann hefur spilað mikið á þessu tímabili og verið virkilega flottur.

Dortmund hefur sagt að Sancho sé ekki til sölu í sumar en samkvæmt Ornstein þá er hann ofarlega á óskalista United.

Það að United spilar ekki í Meistaradeildinni á næstu leiktíð spilar þó inn í að sögn Ornstein.

„Hann myndi vilja fara til Manchester United ef hann myndi snúa aftur í ensku úrvalsdeildina í sumar," sagði Ornstein á BBC Radio 5 Live.

„Mér var sagt að fyrir nokkrum mánuðum væri þetta nánast klárt. Hins vegar, hann vill spila í Meistaradeildinni."

„Hann vill fara til félags þar sem er stöðugleiki og þar sem hann á möguleika á að vinna hluti. Eins og staðan er núna eru 50/50 líkur á því að hann fari til Manchester United í sumar."

„PSG, Juventus, Real Madrid og Barcelona hafa líka sýnt honum áhuga. En það er ekki áhugi á honum frá öðrum félögum í ensku úrvalsdeildinni."

Talið er að Sancho muni kosta 100 milljónir punda ef hann fer frá Dortmund.

Ornstein talaði einnig um Kalidou Koulibaly og Aaron Wan-Bissaka sem eru einnig á óskalista United fyrir sumarið. Hann segir United elski Koulibaly en hann sé mjög dýr. Wan-Bissaka, bakvörður Crystal Palace, er á óskalista United og Manchester City. United vill Wan-Bissaka en er með efnilega leikmenn eins og Diogo Dalot og Ethan Laird á sínum snærum. United vill þróa þessa leikmenn.

Í síðustu viku sagði Sky Sports að Daniel James, kantmaður Swansea, væri á leið til United.



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner