Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   fös 15. maí 2020 12:30
Magnús Már Einarsson
Fimmtán ár síðan David James spilaði frammi í úrvalsdeildinni
James í leiknum fræga.
James í leiknum fræga.
Mynd: Getty Images
Í dag eru fimmtán ár síðan David James spilaði sem framherji hjá Manchester City gegn Middlesbrough í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Manchester City þurfti sigur til að ná Evrópusæti og undir lok leiks ákvað Stuart Pearce, stjóri liðsins, að taka miðjumanninn Claudio Reyna af velli og setja markvörðinn Nicky Weaver inn á í hans stað.

Weaver fór í markið en James skipti um treyju og fór í framlínuna. Pearce vonaði að líkamlegur styrkur hans myndi hjálpa til í vítateignum á lokamínútunum.

„Ég vann alla skallabolta en klikkaði á öllum skotum á lofti. Ég held að ég hafi brotið á öllum leikmönnum Middlesbrough nema markverðinum Mark Schwarzer," sagði James eftir leik.

James náði ekki skoti á markið á þeim mínútum sem hann spilaði frammi.

Manchester City fékk hins vegar vítaspyrnu í viðbótartíma en Schwarzer varði frá Robbie Fowler. Leikurinn endaði 1-1 og Middlesbrough fór í Evrópukeppni á kostnað Manchester City.

Svekkelsið var mikið hjá leikmönnum Manchester City eftir leik en líklega hafa fáir verið svekktari en framherjinn Jon Macken sem var ónotaður varamður. Hann mátti sætta sig við það að sitja áfram á bekknum á meðan James fór í fremstu víglínu. Macken fór frá Manchester City til Crystal Palace eftir tímabilið.

James lék áfram með Manchester City í eitt ár í viðbót en hann átti síðar á ferlinum eftir að spila með ÍBV.


Athugasemdir
banner
banner
banner