banner
   fös 15. júní 2018 17:04
Ingólfur Páll Ingólfsson
HM: Sjálfsmark í uppbótartíma tryggði Íran sigur
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Morocco 0 - 1 Iran
1-0 Aziz Bouhaddouz ('90 , sjálfsmark)

Dramatíkin á lokamínútum í leikjum dagsins á HM heldur áfram. Íran vann óvæntan sigur í fyrsta leik B riðils.

Hart var barist í fyrri hálfleik en Marokkó voru betri aðilinn og áttu alls 9 skot að marki á fyrsta hálftímanum. Íran, sem er undir stjórn Carlos Queiroz, varðist hinsvegar vel og voru óheppnir að komast ekki yfir þegar Mohamedi í marki Marokkó varði frábærlega frá Sardar Azmoun.

Stoppa þurfti leikinn reglulega vegna meiðsla leikmanna í síðari hálfleik og alls voru gerðar sex skiptingar. Þá litu alls fjögur gul spjöld dagsins ljós en þau hefðu hæglega getað verið fleiri.

Í uppbótartíma færðist hiti í leikinn og skilja þurfti menn að. Þjálfarar beggja liða voru þó fljótir að sættast. Þegar leiktíminn var að renna út fékk Íran aukaspyrnu. Boltinn barst inn í teig þar sem Aziz Bouhaddouz, leikmaður Marokkó varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark.

Marokkó fékk ekki nægan tíma til að bregðast við og sigur Íran því niðurstaðan. Frábært afrek hjá Íran en gríðarlega svekkjandi fyrir Marokkó.

Íran er því óvænt með þrjú stig á meðan Marokkó er í vondum málum en liðin eiga eftir að mæta Spáni og Portúgal sem eigast við eftir tæpa klukkustund í síðasta leik dagsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner