fös 15. júní 2018 13:58
Ingólfur Páll Ingólfsson
HM: Salah ónotaður í tapi Egypta gegn Úrúgvæ
Suarez var ekki á skotskónum í dag.
Suarez var ekki á skotskónum í dag.
Mynd: Getty Images
Gimenez fagnar sigurmarki.
Gimenez fagnar sigurmarki.
Mynd: Getty Images
Egyptaland 0 - 1 Úrúgvæ
0-1 Jose Gimenez ('89 )

Egyptaland og Úrúgvæ áttust við í hörku viðureign í fyrsta leik dagsins á HM. Mohamed Salah var allan tímann á bekknum hjá Egyptum en greinilegt er að hann er ekki klár í slaginn.

Bæði lið byrjuðu nokkuð rólega í dag en á 23. mínútu leiksins fékk Suarez sannkallað dauðafæri. Eftir hornspyrnu Úrúgvæ féll boltinn fyrir fætur Suarez sem skaut í hliðarnetið.

Fleira markvert gerðist ekki í fyrri hálfleik en sóknarmenn Úrúgvæ voru í vandræðum með að koma sér inn í leikinn, Egyptar voru þéttir og vörðust vel.

Úrúgvæ byrjaði síðari hálfleikinn af krafti og Suarez komst einn innfyrir en El-Shenawy, markmaður Egypta varði frábærlega. Á 72. mínútu átti Fathy skot sem Muslera varði vel, Úrúgvæ brunaði í skyndisókn en El-Shenawy hrifsaði boltann af löppunum á Suarez sem hefur spilað betur en hann gerði í dag.

Tókst loksins að brjóta ísinn
Egyptar beittu skyndisóknum en undir lok leiks var sóknarþungi Úrúgvæ orðinn nokkuð mikill og eftir frábæra markvörslu El-Shenawi og stangarskot úr aukaspyrnu frá Cavani tókst liðinu loks að brjóta ísinn.

Úrúgvæ fékk hornspyrnu sem Sanchez gaf fyrir. Þar reis Gimenez manna hæst og skallaði boltann í netið. Úrúgvæ hélt út og tók öll stigin.Egyptar nokkuð óheppnir að fá ekkert út úr leiknum en þeir voru sprækir í dag.

Úrúgvæ og Rússland eru bæði með 3 stig eftir fyrstu umferð riðilsins og Egyptar eru svekktir án stiga í 3.sæti. Sádí Arabía rekur lestina með -5 í markatölu.
Athugasemdir
banner
banner
banner