fös 15. júní 2018 18:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hvað segja erlendir leikmenn á Íslandi um möguleika Íslands?
Icelandair
Ísland hefur leik á HM á morgun.
Ísland hefur leik á HM á morgun.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Jonathan Glenn, sóknarmaður Fylkis.
Jonathan Glenn, sóknarmaður Fylkis.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Marc McAusland, fyrirliði Keflavíkur.
Marc McAusland, fyrirliði Keflavíkur.
Mynd: Raggi Óla
Sam Lofton, leikmaður Breiðabliks.
Sam Lofton, leikmaður Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Steven Lennon, sóknarmaður FH.
Steven Lennon, sóknarmaður FH.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Tobias Thomsen, sóknarmaður Vals.
Tobias Thomsen, sóknarmaður Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Ísland spilar sinn fyrsta leik á Heimsmeistaramótinu í fótbolta á morgun við Argentínu. Leikurinn hefst 13:00 að íslenskum tíma en leikurin fer fram á heimavelli Spartak Moskvu í rússnesku höfuðborginni.

Skiptar skoðanir eru á því hvort Ísland geti komist upp úr riðlakeppninni enda er riðilinn mjög erfiður

Fótbolti.net hafði samband við nokkra erlenda leikmenn sem spila á Íslandi og fékk þeirra skoðun á íslenska landsliðinu og möguleikum liðsins á HM í sumar.

Jonathan Glenn - „Erfitt að komast upp úr riðlinum"
„Ég held að það verði mjög erfitt að komast upp úr riðlinum. Ég tel þrjár ástæður fyrir því. Frammistaða Íslands á Evrópumótinu fyrir tveimur árum merkir það að það er ekki lengur litið fram hjá liðinu og það ekki vanmetið. Í öðru lagi er riðillinn líklega sá erfiðasti á mótinu. Að lokum er Gylfi ekki að koma úr sínu besta ári með félagsliði sínu og hefur átt í vandræðum með meiðsli. Hann er samt alltaf stórhættulegur þegar hann er heill."

„Eftir að hafa sagt þetta allt saman þá styð ég Ísland og vonast eftir því besta fyrir liðið."

Jonathan Hendrickx - „Aðalstyrkleikinn er ástríðan"
„Aðalstyrkleiki liðsins er ástríðan sem í því býr. Þeir spila sem fjölskylda og þeir berjast fyrir hvorn annan. Það eru gæði í liðinu og þeir stóðu sig mjög vel á EM fyrir tveimur árum og í undankeppninni fyrir þetta Heimsmeistaramót."

„Í íslenska liðinu eru mjög góðir leikmenn eins og Gylfi og Jóhann Berg. Ég vona að Albert fái tækifæri til að sýna sína hæfileika vegna þess að hann er frábær og mjög spennandi leikmaður."

„Það er erfitt að segja hvaða lið komast upp úr þessum riðli. Króatarnir eru mjög góðir en Ísland hefur áður unnið þá. Argentína er líklega sterkasta liðið í riðlinum og Nígería gæti komið á óvart að mínu mati. Ef Ísland ætlar að komast upp úr riðlinum þá verða þeir að spila upp á sitt besta. Þetta verður erfiðara en á EM 2016. Núna vita allir um Ísland og hvað þeir geta. Fyrir tveimur árum bjóst enginn við að Ísland myndi fara svona langt."

Marc McAusland - „Verður mjög erfitt"
„Ég persónulega held að það verði mjög erfitt fyrir íslenska landsliðið að komast upp úr riðli sínum. Ísland var dregið í mjög erfiðan riðil. Ég býst ekki við því að þeir fái neitt út úr leiknum við Argentínu en ef þeir geta gert vel og unnið leik sinn við Nígeríu þá mun allt velta á einum leik, við Króatíu. Ísland og Króatía þekkjast ótrúlega vel eftir að hafa spilað oft við hvort annað á síðustu árum. Það verður áhugavert þegar þau mætast á HM."

„Ég vona innilega að Ísland komist áfram en ég held í hreinskilni sagt að það verði Argentína og Króatía sem fari áfram."

Marjani Hing-Glover - „Klárlega möguleiki"
„Ísland á möguleika á því komast upp úr riðlakeppninni. Argentína verður erfiður leikur, en ekki ómögulegur. Ísland getur unnið Króatíu og það var sannað í spennandi leik í júní á síðasta ári, leik sem ég fór á. Og ég tel að Nígería sé lið sem Ísland getur unnið. Það er ekki gefið að Ísland fara áfram en það er klárlega möguleiki á því að það gerist."

„Það er spennandi að horfa á íslenska landsliðið og leikmennirnir eru virkilega duglegir. Það sem Ísland gerir vel er að einangra leikstjórnendur andstæðingsins og taka þá út úr leiknum, auk þess sem liðið vinnur sem ein sterk heild varnarlega. Gylfi getur alltaf sprottið upp í sóknarleiknum og Jói Berg getur breytt leikjum út á kantinum. Ég hef miklar væntingar til liðsins og hef enga trú á öðru en að þetta verði æsispennandi Heimsmeistaramót."

Sam Lofton - „Ísland hefur hjartað í þetta"
„Ísland mun standa sig mjög vel í Rússlandi. Heimurinn er farinn að taka eftir Íslandi, en ég held að hinar þjóðirnar á mótinu verði ekki tilbúnar fyrir það sem Íslendingar geta gert."

„Íslenska liðið á frábæran möguleika á að komast upp úr riðlinum. Þeir þekkja Króatíu vel, þeir sönnuðu gegn Gana að þeir geta komið til móts við íþróttalegan styrk liða frá Afríku og Ísland getur komið líka komið fólki á óvart gegn Argentínu. Ísland hefur án efa hjartað í þetta!"

Steven Lennon - „Sagði aldrei neitt slæmt um Ísland"
„Þeir hafa gert frábærlega að komast á mótið, en þeir eru í erfiðum riðli með með mjög góðu Suður-Ameríkuliði, mjög góðu evrópsku liði og einu besta liðinu frá Afríku. Þetta verður erfitt en svo lengi sem liðið kemur saman eins og á Evrópumótinu þá mun það fara langt í þessari keppni."

Lennon var gagnrýndur harðlega þegar hann birti tíst á meðan leik Íslands og Frakklands stóð í 8-liða úrslitunum á EM. Þar sagði Lennon, í stöðunni 4-0 fyrir Frakkland, að loksins væri „alvöru fótbolti að vinna á mótinu."

Hann birti útskýringu stuttu síðar og sagði ekki hafa meint neitt illt með orðum sínum. Hann mætti svo í útvarpsþátt Fótbolta.net í ágúst eftir mótið. Smelltu hér til að hlusta á það

Í samtali við Fótbolta.net í vikunni ítrekaði Lennon að hann hann hefði ekki meint illt með orðum sínum.

„Það var mikið talað um tístið mitt, en ég sagði aldrei neitt slæmt um Ísland. Ég studdi liðið á Evrópumótinu, en sem fótboltaáhugamaður hafði ég gaman af öðruvísi leikaðferðum. Sonur minn er hálf-íslenskur og ég mun sitja með honum og horfa á leikina," sagð Lennon.

Tobias Thomsen - „Mun styðja Ísland jafnmikið og Danmörku"
„Ég hef marga jákvæða hluti að segja um íslenska landsliðið í fótbolta. Í því eru margir frábærir leikmenn eins og Gylfi, Aron Einar og Jóhann Berg, þeir eru þrjú stærstu nöfnin í liðinu. Ísland er með frábæra blödnu af reynslumeiri strákum og svo yngri og efnilegri leikmönnum sem geta komið með kraft inn í liðið innan sem utan vallar. Þarna er ég að tala um leikmenn eins og Albert Guðmundsson og Rúnar Alex Rúnarsson."

„Þeir spila sem ein heild og allir leggja mikið á sig fyrir liðið. Þeir eru í mjög erfiðum riðli þar sem Argentína mun líklega taka efsta sætið. En Ísland hefur sýnt það að þeir geta unnið sterkt lið eins og Króatíu og þess vegna held ég að liðið geti tekið annað sætið í þessum mjög sterka riðli."

„Þegar kemur að útsláttarkeppninni eftir riðlakeppninni, er alltaf erfitt að segja til um hvað muni gerast, en ef þeir hald áfram að berjast og leggja mikið á sig fyrir hvorn annan, þá myndi ég segja að það séu engin takmörk fyrir það hvað þið getið afrekað ef þið trúið á ykkur og liðið ykkar."

„Ég mun styðja Ísland áfram. Mér þykir mjög vænt um landið og ég elska að búa hér með íslensku fólkinu, sem er vingjarnlegt og hreinskilið. Ég mun styðja Ísland jafnmikið og Danmörku."



Fyrsti leikur Íslands er á morgun gegn Argentínu.

Leikir Íslands á HM:
16. júní, Argentína - Ísland (Moskva)
22. júní, Nígería - Ísland (Volgograd)
26. júní, Ísland - Króatía (Rostov On-Don)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner