fös 15. júní 2018 09:46
Elvar Geir Magnússon
Segir að þriðja lið Brasilíu væri svipað sterkt og England
Enska landsliðið á æfingu fyrir HM.
Enska landsliðið á æfingu fyrir HM.
Mynd: Getty Images
Andy Dunn, íþróttafréttamaður hjá Mirror, skrifar grein um enska landsliðið sem birt var í morgun. Hann segir þar að England eigi enga von um að vinna HM og að ef Brasilía myndi stilla upp þriðja liði þá yrði það svipað Englandi að styrkleika.

„Skoðum það hvernig liðið virðist vera í huga Gareth Southgate: Pickford – Walker, Stones, Maguire – Trippier, Henderson, Alli, Young – Lingard, Kane, Sterling," segir Dunn.

„Þarna er markvörður sem var í fallliði ekki alls fyrir löngu og hefur lítið gert undanfarin tvö tímabil annað en að ná í boltann úr markinu. Í varnarlínunni er leikmaður sem er ekki að spila sína stöðu og annar sem er fjórði í goggunarröðinni af fjórum hjá félagsliði sínu. Sá þriðji var á síðasta stórmóti sem bjórþyrstur aðdáandi."

„Maður veit ekki nema Raheem Sterling muni skila inn marki. Eftir allt hlýtur hann að vilja fylgja eftir síðasta marki sínu fyrir England... sem kom gegn Eistlandi fyrir næstum þremur árum." segir Dunn sem bætir því svo við að Middlesbrough hafi fallið undir stjórn Gareth Southgate.

„Af hverju í veröldinni ættum við að halda að þetta verði eitthvað betra en óskipulagða liðið á EM 2016, sem í seinni hálfleik gegn Íslandi virtist eins og fótbolti væri óþekkt erlent tungumál í þeirra huga. Níu leikmenn sem komu við sögu í Nice fíaskóinu gætu komið við sögu á mánudaginn."

Dunn telur að stór ástæða þess að enska landsliðið sé ekki sterkara sé hversu alþjóðleg enska úrvalsdeildin sé orðin og margir erlendir leikmenn fengnir í hana. Hann telji þó að landsliðið sé vafalítið ákveðið í að reyna að svara efasemdarröddum og gera þjóðina stolta á HM í Rússlandi.

England mætir Túnis á mánudaginn en Panama og Belgía eru einnig í riðlinum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner