Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mið 15. ágúst 2018 21:38
Ívan Guðjón Baldursson
Ofurbikar Evrópu: Atletico kláraði Real í framlengingu
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Real Madrid 2 - 4 Atletico Madrid
0-1 Diego Costa ('1)
1-1 Karim Benzema ('27)
2-1 Sergio Ramos ('63, víti)
2-2 Diego Costa ('79)
2-3 Saul Niguez ('98)
2-4 Koke ('104)

Real og Atletico Madrid áttust við í úrslitaleik um Ofurbikar Evrópu. Sex mörk voru skoruð í áhugaverðum leik sem fór í framlengingu.

Það eru nokkrir mánuðir síðan liðin tryggðu sæti sitt í úrslitaleiknum. Atletico Madrid hafði betur gegn Marseille í úrslitaleik Evrópudeildarinnar tíu dögum áður en Real Madrid lagði Liverpool að velli í úrslitum Meistaradeildarinnar.

Atletico fór afar vel af stað í dag og var Diego Costa búinn að skora eftir innan við 60 sekúndur. Hann fékk þá boltann sendan hátt upp völlinn og vann skallaeinvígi við Sergio Ramos. Costa skallaði boltann áfram og náði honum sjálfur, hljóp framhjá Raphael Varane og þrumaði honum fast og hátt á nærstöngina þar sem hann fór yfir Keylor Navas í marki Real.

Karim Benzema jafnaði síðar í hálfleiknum eftir frábæran undirbúning frá Gareth Bale. Velski kantmaðurinn stakk Lucas Hernandez og Koke af áður en hann gaf fullkomna fyrirgjöf sem rataði beint á kollinn á Benzema.

Real komst yfir í síðari hálfleik þegar hornspyrna fór í höndina á Diego Godin og dómarinn dæmdi vítaspyrnu. Ramos skoraði örugglega úr spyrnunni.

Stundarfjórðungi síðar gerðist Marcelo sekur um alvarleg mistök þegar hann hleypti Juanfran innfyrir vörnina. Juanfran gaf boltann á Angel Correa sem dansaði framhjá varnarmönnum Real og gaf fyrir á Costa sem skoraði sitt annað mark og jafnaði leikinn.

Meira var ekki skorað í venjulegum leiktíma og því blásið til framlengingar, þar sem Saul Niguez og Koke gerðu út um leikinn.

Saul skoraði magnað mark þar sem hann var einn og óvaldaður í teignum og smellhitti knöttinn sem barst inn í teiginn á lofti. Enginn markvörður í heimi hefði átt möguleika í þennan bolta.

Meira var ekki skorað og þriðji evrópski Ofurbikar Atletico Madrid staðreynd, en Real vann bikarinn 2014, 2016 og 2017.
Athugasemdir
banner
banner
banner