Guehi vill fara til Liverpool - Viðræður við Gordon ganga illa - Man Utd skoðar stjóra
banner
   fim 15. ágúst 2024 17:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Kominn í risastórt danskt félag - „Kannski ekki erfitt að fá fleiri mínútur en hjá Fram"
'Þetta er skemmtileg áskorun og verkefni sem ég get ekki beðið eftir að eiga við'
'Þetta er skemmtileg áskorun og verkefni sem ég get ekki beðið eftir að eiga við'
Mynd: Esbjerg
'Ég verð að henda í 'shoutout' á Daníel Traustason sem er allt í öllu í yngri flokkum Fram.'
'Ég verð að henda í 'shoutout' á Daníel Traustason sem er allt í öllu í yngri flokkum Fram.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þakklátur fyrir traustið frá Ragga Sig.
Þakklátur fyrir traustið frá Ragga Sig.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég hef trú á því að ég geti fengið góðar mínútur hérna og að ég geti fengið fínt hlutverk hérna'
'Ég hef trú á því að ég geti fengið góðar mínútur hérna og að ég geti fengið fínt hlutverk hérna'
Mynd: Esbjerg
Byrjaði í bikarleikjunum gegn Árbæ og ÍH, en spilaði annars mjög lítið.
Byrjaði í bikarleikjunum gegn Árbæ og ÍH, en spilaði annars mjög lítið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breki og umboðsmaðurinn Fredrik Risp.
Breki og umboðsmaðurinn Fredrik Risp.
Mynd: Esbjerg
'Ég svo sem talaði alveg við Rúnar og þjálfarateymið.'
'Ég svo sem talaði alveg við Rúnar og þjálfarateymið.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Svala Helgadóttir, móðir Breka, að störfum með kvennalandsliðinu árið 2009.
Svala Helgadóttir, móðir Breka, að störfum með kvennalandsliðinu árið 2009.
Mynd: Fótbolti.net - Mist Rúnarsdóttir
Breki Baldursson var á sunnudag tilkynntur sem nýr leikmaður Esbjerg í Danmörku. Hann var keyptur til Danmerkur frá uppeldisfélaginu sínu, Fram. Hann gæti spilað sinn fyrsta leik með liðinu á laugardag þegar Esbjerg tekur á móti Vendsyssel.

Breki er átján ára miðjumaður sem var í stóru hlutverki hjá Fram seinni hluta síðasta tímabils en spilaði mjög takmarkað á þessu tímabili. Hann er U19 landsliðsmaður og spilaði með U20 í leikjunum gegn Ungverjalandi í mars. Breki ræddi um félagaskiptin til Esbjerg við Fótbolta.net.

Spennandi uppbygging
„Það er mjög góð tilfinning að vera orðinn leikmaður Esbjerg. Ég er ótrúlega spenntur fyrir verkefninu sem er hérna í gangi, það er uppbygging í gangi eftir slæma eigendur sem áttu liðið. Það er verið að byggja klúbbinn hægt og rólega upp og koma honum á þann stað sem hann á að vera. Þetta er risastór klúbbur og var í efstu deild í mörg ár," segir Breki.

Það gekk illa svo í nokkur ár í röð en liðið komst upp úr C-deildinni og á að byggja upp lið sem getur komist aftur upp í deild þeirra bestu. „Núna er verið að fá aftur heim unga og uppalda leikmenn sem höfðu farið í önnur lið. Það er verið að spila á mörgum uppöldum leikmönnum héðan af svæðinu."

„Það sem heillar mig mest er að mér líður eins og þetta sé frekar heimilislegur klúbbur. Mér líður eins og ég sé rosalega velkominn og allir í kringum klúbbinn hafa verið mjög þægilegir í öllum samskiptum. Ég er mjög spenntur fyrir uppbyggingunni sem er í gangi og þetta er geggjað tækifæri til að reyna sanna sig og fá fleiri mínútur."


Ekki erfitt að fá fleiri mínútur
Breki kom strax að sterkum punkti sem komið var inn á í inngangi greinarinnar. Hann fékk lítið að spila með Fram á tímabilinu. Hann hafði komið inn á í einungis sex deildarleikjum fyrri part tímabilsins með Fram. Samanlagt voru mínúturnar tæplega 40 í deildinni en hann byrjaði fyrstu tvo bikarleiki Fram á tímabilinu.

Sérðu fram á fleiri tækifæri hjá aðalliði Esbjerg heldur en þú varst að fá hjá Fram?

„Ég var ekki að fá margar mínútur með Fram núna í sumar. Klárlega finnst mér þetta tækifæri til þess að fá fleiri mínútur. Það er kannski ekki erfitt að fá fleiri mínútur, þær voru ekki margar. Já, ég hef trú á því að ég geti fengið góðar mínútur hérna og að ég geti fengið fínt hlutverk hérna."

Á Ragga Sig mikið að þakka - Mismunandi skoðanir
Hvað vilt þú segja um hlutverkið þitt í sumar hjá Fram?

„Ég fékk náttúrulega svolítið stórt hlutverk þegar Raggi tók við af Nonna í fyrra. Ég á Ragga mikið að þakka fyrir að hafa hent mér svona í djúpu laugina og hafa haft þessa trú á mér."

„Félagið ákveður svo að fara í aðra átt, og skiljanlega, þeim tókst að semja við Rúnar Kristins. Það er ekkert hægt að setja út á það. Svo er fótboltinn bara svona, þjálfarar hafa mismunandi sýn á þetta og mismunandi skoðanir. Það er lítið sem gerðist, þetta snýst bara um að menn eru með mismunandi skoðanir. Því miður fékk ég ekki jafn stórt hlutverk hjá honum Rúnari og ég fékk hjá Ragga."

„Ég svo sem talaði alveg við Rúnar og þjálfarateymið. Það var ekki eitthvað ákveðið sem útskýrði af hverju ég fékk ekki að spila, nema kannski að ég var í erfiðri samkeppni við Tiago og Fred inn á miðsvæðinu. Rúnar valdi bara sitt lið."


Varstu að íhuga að fara á lán í byrjun tímabils?

„Fyrir tímabilið var ég alls ekkert að íhuga það. Ég fékk alveg leiki á undirbúningstímabilinu og var að koma úr góðu tímabili í fyrra. Ég var bara með miklar væntingar og allt það. Þegar líður á tímabilið þá áttar maður sig á því að maður er ekki að fara vera í hlutverki í liðinu og þegar glugginn opnaði var ég farinn að íhuga meira að fara á lán. Svo kom þessi möguleiki á borðið og þetta er geggjað tækifæri sem erfitt er að segja nei við."

Gekk mjög vel á reynslunni og Esbjerg vildi kaupa
Esbjerg fékk Breka á reynslu í sumar. Hvernig gekk sú ferð og var alveg skýrt að Esbjerg vildi strax fá Breka?

„Þeir bjóða mér út á reynslu á miðju tímabili. Það kom í gegnum umboðsmanninn sem spilaði með Esbjerg á sínum tíma og er með góðar tengingar þar. Hann heitir Fredrik Risp. Esbjerg býður mér út á reynslu og ég er mjög þakklátur að Fram hafi leyft mér að fara á miðju tímabili. Það er ekkert sjálfsagður hlutur að fá að fara út þegar tímabilið er í gangi. Ég æfi með þeim í tvær vikur og spila æfingaleik við Kolding. Mér gekk mjög vel, átti góðan leik og æfingarnar gengu vel. Síðan fékk ég þau skilaboð að þeir hafi verið mjög ánægðir með mig og hefðu áhuga á að fá mig. Síðan fóru klúbbarnir í viðræður um allt þetta á bakvið tjöldin og núna er ég loksins búinn að skrifa undir."

Áhugi frá Danmörku, Hollandi og Ítalíu í vetur
Voru fleiri félög að horfa til Breka í sumar?

„Akkúrat núna í sumar þá fann ég ekki fyrir öðrum félögum sem höfðu virkilegan áhuga. En eftir tímabilið 2023 þá var mun meiri áhugi. Ég var þá náttúrulega búinn að spila meira og því skiljanlega meiri áhugi."

„Það voru félög sem höfðu virkilegan áhuga í vetur. Ég fékk boð um að fara út á reynslu og einhver samtöl, en síðan varð ekkert úr því. Ég var heldur ekkert að stressa mig á því á þeim tímapunkti. Ég var í fínu hlutverki hjá Fram og Fram að byggja upp á ungum leikmönnum; mikið af ungum leikmönnum komið upp nýlega í gegnum yngri flokkana."

„Ég verð að henda í 'shoutout' á Daníel Traustason sem er allt í öllu í yngri flokkum Fram. Ég vil meina að hann eigi stóran þátt í að það séu svona mikið af ungum og efnilegum leikmönnum að koma núna upp í meistaraflokk."

„Það var áhugi frá félögum í Danmörku og Hollandi. Ég fór líka á reynslu til Ítalíu (til Bologna), en svo varð ekkert úr því, fjaraði bara út."


Hluti af mikilli íþróttafjölskyldu
Hvaða samtöl eru tekin áður en tilboð Esbjerg er samþykkt?

„Ég tala mjög mikið við umboðsmanninn, treysti rosalega á hann. Hann talaði mjög vel um Esbjerg og fannst þetta mjög gott næsta skref. Síðan er maður náttúrulega líka með fjölskylduna í kringum sig. Ég er heppinn að vera í fótboltafjölskyldu, auðvelt að fá ráðgjöf. Pabbi var náttúrulega leikmaður á sínum tíma, óheppinn með meiðsli. Síðan er mamma sjúkraþjálfari, var m.a. sjúkraþjálfari hjá kvennalandsliðinu. Fjölskylda pabba er svo mikil handboltafjölskylda. Þetta er því algjör íþróttafjölskylda."

Faðir Breka er Baldur Knútsson sem lék með Fram í kringum aldamótin. Móðir hans er Svala Helgadóttir sem var m.a. sjúkraþjálfari kvennalandsliðsins á sínum tíma eins og sést á mynd hér við fréttina.

Kemur inn í aðalliðshópinn
Er Breki að koma inn sem leikmaður í aðalliði Esbjerg eða verður þetta einhver tröppugangur?

„Ég er hugsaður sem aðalliðsleikmaður núna. Ég æfi með aðalliðinu og berst um sæti í liðinu. Síðan er ég á þeim aldri að ég hef alltaf valmöguleikann á því að spila með U19 liðinu ef mig vantar mínútur. Svo er spilað í 'Future Cup', spilað í því nokkrum sinnum í mánuði. Þar er blanda af aðalliðsleikmönnum og U19 leikmönnum. Ég get því gripið í það og U19 ef mig vantar spiltíma."

Hvernig er leikformið komandi inn í þetta tímabil með Esbjerg?

„Rétt áður en ég fór út þá var ég farinn að fá að spila aðeins með 2. flokki Fram. Leikformið er því bara fínt. Í byrjun tímabils fékk ég ekki að spila mikið með 2. flokki, en þegar ég fékk alltaf að spila minna og minna með meistaraflokki þá var ekki annað hægt en að spila meira með 2. flokki og safna mínútum. Leikformið er bara helvíti fínt."

Mjög erfitt að kveðja Fram
Er erfitt að kveðja Fram?

„Já, það er mjög erfitt. Þetta er minn æskuklúbbur og ég hef aldrei spilað fyrir neitt annað lið. Ég hef verið þarna síðan ég var sex ára gutti og gengið í gegnum margt þarna, m.a. flutninga. Fjölskyldan mín er mikil Fram-fjölskylda. Það er klárlega mjög erfitt að kveðja Fram."

Sjálfum sér nægur og danskan kemur
Breki flytur einn út til Danmerkur. Danska er oft litin hornauga hjá nemendum svo Breki var spurður hvernig hans danska væri.

„Ég get svo sem alveg lesið hana ágætlega og skilið hana þegar aðrir tala, mismunandi eftir hreim og svona, en ég er ekki ennþá farinn að tala hana vel. Ég get laumað inn nokkrum orðum hér og þar, en ég er farinn að skilja hana nokkuð vel. Ég er viss um að þetta komi fljótt."

Jafnaldri Breka, Nóel Atli Arnórsson, er að spila með Álaborg, Sölvi Stefánsson hjá AGF er einu ári yngri og þá er Viktor Bjarki Daðason, fyrrum samherji Breka hjá Fram, að spila með unglingaliðum FCK. Breki þekkir því nokkra leikmenn í Danmörku.

„Mér líst vel á að búa einn, er spenntur fyrir því. Þó að ég segi sjálfur frá þá er ég mjög sjálfum mér nægur. Ég held að það henti mér vel. Þetta er skemmtileg áskorun og verkefni sem ég get ekki beðið eftir að eiga við," segir Breki að lokum.
Athugasemdir
banner
banner