lau 15. september 2018 15:58
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
England: Magnaður Hazard - Sigrar hjá Arsenal og Man City
Eden Hazard var magnaður í sigri Chelsea.
Eden Hazard var magnaður í sigri Chelsea.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Xhaka skoraði fyrir Arsenal.
Xhaka skoraði fyrir Arsenal.
Mynd: Getty Images
Man City fór létt með Fulham.
Man City fór létt með Fulham.
Mynd: Getty Images
Zaha skoraði sigurmark Palace. Hann er liðinu rosalega mikilvægur.
Zaha skoraði sigurmark Palace. Hann er liðinu rosalega mikilvægur.
Mynd: Getty Images
Eddie Howe og lærisveinar hans í Bournemouth eru að byrja þetta tímabil vel.
Eddie Howe og lærisveinar hans í Bournemouth eru að byrja þetta tímabil vel.
Mynd: Getty Images
Arsenal, Chelsea og Manchester City unnu leiki sína í ensku úrvalsdeildinni í dag. Fimm leikir voru að klárast í deildinni.

Arsenal mætti Newcastle í sjónvarpsleiknum og þar var það Arsenal sem náði í sigurinn. Granit Xhaka skoraði fyrsta markið beint úr aukaspyrnu í upphafi síðari hálfleiks. Glæsilegt mark en Mesut Özil bætti við öðru marki stuttu síðar.

Varnarmaðurinn Ciaran Clark minnkaði muninn fyrir Newcastle þegar lítið var eftir en það kom of seint. Lokatölur 2-1 fyrir Arsenal sem er búið að vinna þrjá leiki í röð eftir tapleiki í fyrstu tveimur umferðunum.

Stórliðin sigruðu nýliðana
Chelsea er með fullt hús stiga eins og Liverpool. Manchester City er ekki með fullt hús en Englandsmeistararnir áttu ekki í miklu basli með nýliða Fulham. Leroy Sane og David Silva skoruðu í fyrri hálfleik og snemma í þeim seinni gerði Raheem Sterling þriðja markið og þar við sat. Öruggur sigur Manchester City staðreynd og er liðið með 13 stig, tveimur stigum minna en Liverpool og Chelsea.

Eden Hazard sá til þess að Chelsea vann Cardiff. Gestirnir í Cardiff komust yfir með marki Sol Bamba á 16. mínútu en Hazard skoraði tvö áður en fyrri hálfleikurinn kláraðist. Sjálfstraustið í botni hjá Hazard eftir góðan leik á Laugardalsvelli í vikunni þar sem hann fór fyrir liði Belgíu í 3-0 sigri á Íslandi.

Hazard fullkomnaði þrennuna í síðari hálfleik með marki úr vítaspyrnu. Willian bætti við fjórða marki Chelsea á 83. mínútu eftir að hafa komið inn á sem varamaður.


Chelsea er á toppi deildarinnar. Aron Einar Gunnarsson var ekki í leikmannahópi Cardiff í dag. Cardiff er með tvö stig eftir fimm leik og er liðið í 16. sæti.

Crystal Palace og Bournemouth með sigra
Bournemouth hafði betur gegn Leicester á heimavelli sínum í tíðindamiklum leik. Bournemouth komst í 4-0 og skoraði Adam Smith fjórða markið á 81. mínútu. Leicester sýndi karakter, einum færri eftir að Wes Morgan hafði fengið sitt annað gula spjald á 69. mínútu, og minnkaði muninn í 4-2.

Lengra komst Leicester hins vegar ekki og niðurstaðan 4-2 sigur Bournemouth. Leicester er með sex stig en Bournemouth er með 10 stig og fer vel af stað á þessu tímabili.

Wilfried Zaha sneri aftur í liði Crystal Palace og hann tryggði liðinu sigur á útivelli gegn Huddersfield. Zaha er rosalegur lykilmaður fyrir þetta lið Crystal Palace.

Huddersfield er með tvö stig eins og Cardiff en í fallsætunum eru Newcastle, Burnley og West Ham. Newcastle er með eitt stig en Burnley og West Ham eru án stiga.

Bournemouth 4 - 2 Leicester City
1-0 Ryan Fraser ('19 )
2-0 Ryan Fraser ('37 )
3-0 Joshua King ('41 , víti)
4-0 Adam Smith ('81 )
4-1 James Maddison ('88 , víti)
4-2 Marc Albrighton ('89 )
Rautt spjald: Wes Morgan, Leicester City ('69)

Chelsea 4 - 1 Cardiff City
0-1 Sol Bamba ('16 )
1-1 Eden Hazard ('37 )
2-1 Eden Hazard ('43 )
3-1 Eden Hazard ('80 , víti)
4-1 Willian ('83 )

Huddersfield 0 - 1 Crystal Palace
0-1 Wilfred Zaha ('38 )

Manchester City 3 - 0 Fulham
1-0 Leroy Sane ('2 )
2-0 David Silva ('21 )
3-0 Raheem Sterling ('47 )

Newcastle 1 - 2 Arsenal
0-1 Granit Xhaka ('49 )
0-2 Mesut Ozil ('58 )
1-2 Ciaran Clark ('90 )

Klukkan 16:30 hefst leikur Watford og Manchester United. Smelltu hér til að sjá byrjunarliðin.
Athugasemdir
banner
banner
banner