sun 15. september 2019 18:43
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pepsi Max-deildin: Tíu leikmenn HK jöfnuðu á 96. mínútu
HK sýndi mikinn karakter.
HK sýndi mikinn karakter.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ásgeir Sigurgeirsson skoraði fyrir KA.
Ásgeir Sigurgeirsson skoraði fyrir KA.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Emil skoraði jöfnunarmarkið.
Emil skoraði jöfnunarmarkið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KA 1 - 1 HK
1-0 Ásgeir Sigurgeirsson ('8 )
1-1 Emil Atlason ('96 )
Rautt spjald:Björn Berg Bryde, HK ('75)
Lestu nánar um leikinn

KA og HK áttust við á Akureyri í Pepsi Max-deildinni í dag. Leikurinn var að klárast.

Heimamenn í KA byrjuðu vel og þeir komust yfir eftir aðeins átta mínútur. „Ásgeir Sigurgeirsson skorar fyrsta markið sitt í sumar og það er kærkomið! Hallgrímur Mar á hornspyrnu sem að HK-ingar ná ekki að skalla frá, boltinn lendir fyrir Groven sem að skallar hann til Ásgeirs. Hann klárar færið af stakri snilld þegar hann tekur boltann viðstöðulaust framhjá Arnari Frey," skrifaði Daníel Smári Magnússon í beinni textalýsingu þegar Ásgeir Sigurgeirsson skoraði fyrir KA.

Staðan var 1-0 að loknum fyrri hálfleiknum, en KA spilaði vel eftir markið og voru vel að forystunni komnir.

HK setti KA-menn undir pressu í byrjun seinni hálfleiks og skrifaði Daníel á 60. mínútu: „Þetta endar bara á einn veg ef að KA menn færa sig ekki ofar! HK komast upp vinstri kantinn og Valgeir Valgeirsson á fastan bolta sem fer þvert fyrir mark KA en engin HK löpp komst í boltann!"

Þegar stundarfjórðungur var eftir af venjulegum leiktíma dró til tíðinda. Þá fékk Björn Berg Bryde, varnarmaður HK, sitt annað gula spjald og þar með rautt. HK var því einum færri síðustu mínúturnar.

Valgeir Valgeirsson, ungur leikmaður HK, var nálægt því að jafna á 86. mínútu, en heimamenn björguðu á línu. Tíu leikmenn HK gáfust ekki upp og jöfnuðu þeir á síðustu sekúndum fimm mínútuna uppbótartímans. Emil Atlason með markið.

„Þetta er ótrúleg dramatík! Frábær hornspyrna endaði með því að boltinn var STANGAÐUR framhjá Jajalo í markinu. Þvílíkur endir!" skrifaði Daníel þegar HK jafnaði.

Mikil dramatík. KA-menn naga sig líklega í handarbökin að hafa ekki gert út um leikinn einum fleiri.

HK er í fimmta sæti deildarinnar með 26 stig. KA er í tíunda sæti með 25 stig. Deildin er gríðarlega jöfn og það munar aðeins þremur stigum á liðinu í fjórða sæti, Stjörnunni, og KA, liðinu í tíunda sæti.

Þetta var fyrsti leikurinn í 20. umferðinni, en umferðin heldur áfram á morgun.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner