mán 15. nóvember 2021 18:00
Aksentije Milisic
„Enginn hjá Portúgal er með vængi og getur flogið”
Mitrovic fagnar í gærkvöldi.
Mitrovic fagnar í gærkvöldi.
Mynd: EPA
Piksi ásamt Dusan Tadic og Sergej Milinkovic-Savic.
Piksi ásamt Dusan Tadic og Sergej Milinkovic-Savic.
Mynd: EPA
Tadic jafnaði metin í Lissabon.
Tadic jafnaði metin í Lissabon.
Mynd: EPA
Það var rosaleg dramatík í A-riðlinum í undankeppni HM í gærkvöldi en þá mættust tvö efstu liðin í lokaumferðinni, Portúgal og Serbía.

Sjá einnig:
Vlahovic: Get ekki beðið eftir HM
Sjö af þrettán Evrópusætum á HM í Katar eru frátekin

Heimamönnum í Portúgal dugði jafntefli til að komast beint á HM í Katar en Serbarnir þurftu á sigri að halda. Þegar allt stefndi í jafntefli á 90. mínútu, þá ákváðu Serbarnir að nota uppskrift sem hefur mjög oft skilað árangri.

Fyrirliðinn Dusan Tadic fann þá pönnuna á Aleksandar Mitrovic sem stangaði boltann framhjá varnarlausum Rui Patricio í marki Portúgals. Í kjölfarið brutust út mikil fagnaðarlæti hjá Serbunum en þögn sló á stuðningsmenn Portúgals í Lissabon.

2-1 sigur Serbíu staðreynd gegn ógnvænlega sterku liði Portúgals. Serbía er nú komið á HM í Katar á næsta ári en Cristiano Ronaldo og félagar þurfa að gera sér umspil að góðu. Þar þarf liðið að vinna tvo leiki til þess að komast á HM.

„Við áttum skilið að fara áfram eftir þessa frammistöðu í kvöld. Við sýndum hug, hjarta og vilja til að koma hingað og vinna leikinn. Fyrir mér er Portúgal besta lið Evrópu, sjáðu bara alla leikmennina sem þeir hafa í sínum röðum,” sagði Dragan ‘Piksi’ Stojkovic, stjóri Serbíu.

Serbía hafði ekki unnið Portúgal í heil 37 ár en síðasti sigurleikurinn gegn þeim kom árið 1984. Hver skoraði sigurmarkið í þeim leik? Jú, það var hann Stojkovic sjálfur.

„Ég var spurður út í þetta í gær (leikinn árið 1984). Ég sagði að svona hlutir taka alltaf enda, það er kominn tími á það. Það var það sem við gerðum, mættum til Portúgal og unnum úrslitaleik.”

„Ég sagði við strákana að enginn í Portúgal er með vængi og getur flogið. Þetta er fótboltaleikur, ellefu gegn ellefu. Við sýndum risa stórt hjarta í gegnum allan leikinn og það skilaði sér í lokin,” sagði Piksi sem er í miklum metum hjá stuðningsmönnum Serbíu.

Þá talaði Piksi einnig um það hvernig hann náði að sannfæra Mitrovic um það að byrja á bekknum.

„Við fórum í göngutúr deginum fyrir leik. Ég sagði við hann að úrslitin munu ráðast í síðari hálfleiknum, sá fyrri er ekki jafn mikilvægur. Ég vildi eiga hann inni fyrir seinni hálfleikinn. Hann skildi mig og var ekkert fúll. Hann er sannur atvinnumaður. Þessi ákvörðun skilaði okkur til Katar á endanum."

Mitrovic fagnaði markinu og sætinu á HM með því að fá sér bjór og pizzu inn í klefa. Þetta gerir hann alltaf eftir leiki þegar stórir áfangar nást. Mynd af honum má sjá hér fyrir neðan. (Smella þarf á myndina)



Athugasemdir
banner