mán 15. nóvember 2021 21:20
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fagna því að fá Natöshu inn - „Frábærar fréttir fyrir okkur"
Natasha Moraa Anasi.
Natasha Moraa Anasi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik samdi í síðustu viku við Natöshu Moraa Anasi. Hún kemur frá Keflavík.

Natasha, sem er þrítug, hefur verið fyrirliði Keflavíkur síðustu tvö ár en hún kom fyrst til landsins árið 2014 og samdi við ÍBV. Hún getur bæði leyst af í vörninni og spilað á miðsvæðinu. Hún er komin með íslenskan ríkisborgararétt og er nýjasta landsliðshópnum sem Þorsteinn Halldórsson valdi.

Agla María Albertsdóttir og Telma Ívarsdóttir voru gestir í nýjasta þætti af Heimavellinum. Þær fagna komu Natöshu, sem er stórt nafn í íslenskum fótbolta, í Kópavoginn.

„Þetta eru frábærar fréttir fyrir okkur. Hún getur spilað margar stöður og er stór karakter. Það er gott fyrir okkur að fá svona stóran karakter í hópinn," segir Agla María.

„Þetta er frábært fyrir félagið að fá hana inn," sagði Telma og tekur Agla undir það.

„Maður sér það strax á fyrstu æfingunum að hún er týpa sem er að leiðbeina leikmönnum og lætur í sér heyra. Það skiptir mjög miklu máli. Hún má ekki spila í Meistaradeildinni en fyrir næsta sumar er þetta mikill styrkur."

„Maður hefur fylgst með henni og keppt á móti henni. Þegar ég var yngri, þá horfði ég á hana endalaust. Hún var alltaf geggjuð og alltaf til fyrirmyndar inn á vellinum og fyrir utan. Mér finnst það geggjað að hún sé komin inn á æfingar hjá okkur," sagði Telma.

Einnig var rætt um Karen Maríu Sigurgeirsdóttur, sem kom frá Þór/KA, og Clöru Sigurðardóttur sem Breiðablik fékk frá ÍBV nýverið í Heimavellinum. Það er hægt að hlusta á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.
Heimavöllurinn: Skólapúsl, framfarir og ævintýri í Meistaradeild
Athugasemdir
banner
banner