Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 15. nóvember 2021 19:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Leysti af í marki og fékk í kjölfarið kallið í U17 landsliðið
Telma Ívarsdóttir.
Telma Ívarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Telma Ívarsdóttir, markvörður Breiðabliks, var gestur í nýjasta þætti Heimavallarsins ásamt liðsfélaga sínum, Öglu Maríu Albertsdóttur.

Þar sagði Telma frá því að hún hefði verið sóknarmaður í yngri flokkunum hjá Fjarðabyggð/Hetti/Leikni en hún hafi verið valin í unglingalandsliðið sem markvörður. Hún hafði þá verið að leysa af sem markvörður þegar það þurfti.

„Ég byrjaði ekki í marki fyrr en undir lok ársins 2013 þegar Úlli (Úlfar Hinriksson) valdi mig í U17 landsliðið," sagði Telma í Heimavellinum.

Úlfar, sem starfar núna hjá Breiðabliki, valdi Telmu í hópinn sem markvörð.

„Ég hélt hann hefði fyrst valið mig sem sóknarmann. Ég átti ekki markmannshanska eða neitt. Svo kom í ljós að ég var að fara sem markvörður."

„Ég var að leysa af í 3. flokki sem markvörður þegar ég var í 4. flokki. Það var ekki til markvörður. Petra Lind var að þjálfa og hún plataði mig í mark á æfingum því það vantaði. Svo spilaði ég með 3. flokki fyrir sunnan, akkúrat leik sem Úlli var að horfa á. Í kjölfarið var ég valin í U17 landsliðið. Ég mætti með gleraugun mín í þokkabót á landsliðsæfingar," sagði Telma.

Fljótlega eftir að hún skipti yfir í að vera markvörður, þá var hún farin að spila með meistaraflokki og er í dag hluti af landsliðshópi Íslands. Hún er sá markvörður sem hefur varið flest skot í Meistaradeild kvenna á tímabilinu sem er ansi vel af sér vikið.

Hægt er að hlusta á Heimavöllinn í heild sinni hér að neðan.
Heimavöllurinn: Skólapúsl, framfarir og ævintýri í Meistaradeild
Athugasemdir
banner
banner
banner