Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   lau 15. desember 2018 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Fabregas: Þetta eru nokkrir svartir sauðir
Mynd: Getty Images
Cesc Fabregas er ekki sáttur með lítinn hóp stuðningsmanna Chelsea sem sýna kynþáttafordóma á vellinum.

Stuðningsmennirnir óumburðarlyndu létu í sér heyra þegar Chelsea lagði Englandsmeistara Manchester City að velli í síðustu umferð og lenti Raheem Sterling fyrir barðinu á níðsöngvum þeirra.

Chelsea hefur þegar fordæmt hegðun stuðningsmanna sinna og segist Fabregas, sem hefur verið leikmaður Chelsea í fjögur og hálft ár, ekki hafa þolinmæði fyrir svona hegðun.

„Stuðningsmenn Chelsea eru æðislegir og ég veit ekki hver ber ábyrgð á kynþáttafordómunum en ég get ekki samþykkt þessa hegðun. Þetta er ekki hið sanna andlit Chelsea," sagði Fabregas.

„Fólk einblínir á Chelsea eins og félagið hafi eitthvað með þetta að gera. Þetta eru nokkrir svartir sauðir og því fyrr sem við losum okkur við þá, því betra.

„Það er partur af leiknum að reyna að móðga andstæðinginn til að koma honum úr jafnvægi en kynþáttaníð er of mikið, í hvaða kringumstæðum sem er.

„Fólkið sem ber ábyrgð á þessu mun finnast og það verður dregið til ábyrgðar fyrir gjörðir sínar. Vonandi lærir það eitthvað af reynslunni."

Athugasemdir
banner
banner
banner